Davis með 47 og New Orleans komið áfram

Anthony Davis treður boltanum í körfuna hjá Portland. Hann skoraði ...
Anthony Davis treður boltanum í körfuna hjá Portland. Hann skoraði 47 stig. AFP

New Orleans Pelicans varð í kvöld fyrsta liðið til að komast áfram úr fyrstu umferð úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfuknattleik þegar liðið vann Portland Trail Blazers í fjórða sinn í jafnmörgum leikjum, 131:123 á heimavelli sínum.

Portland varð í fjórða sæti Vesturdeildar en New Orleans í fimmta sæti, þannig að reiknað var með hnífjöfnu einvígi. New Orleans vann hinsvegar tvisvar í Portland og fylgdi því síðan vel á eftir með tveimur heimasigrum, 4:0. Portlandmenn eru því komnir fyrstir í sumarfrí af liðunum sextán sem komust í úrslitakeppnina.

Anthony Davis átti stórbrotinn leik en hann skoraði 47 stig og tók 11 fráköst fyrir New Orleans. Jrue Holiday gaf honum lítið eftir og var með 41 stig og 8 stoðsendingar, og þá átti Rajon Rondo 16 stoðsendingar fyrir liðið.

CJ McCollum skoraði 38 stig fyrir Portland og Al-Farouq Aminu gerði 27.

mbl.is