„Þeir vildu þetta meira“

Brynjar Þór Björnsson með boltann en Viðar Ágústsson er til …
Brynjar Þór Björnsson með boltann en Viðar Ágústsson er til varnar. mbl.is/Árni Sæberg

„Þeir vildu þetta meira,“ sagði Brynjar Þór Björnsson, fyrirliði KR, þegar mbl.is ræddi við hann í DHL-höllinni í gær þar sem Tindastóll lagði KR að velli 98:70 í öðrum leik liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í körfuknattleik. Staðan er nú jöfn, 1:1. 

„Við vorum á hælunum á meðan þeir vildu þetta bara meira. Þeir voru með hjartað á réttum stað fannst mér,“ sagði Brynjar en að loknum fyrri hálfleik var staðan 50:44 fyrir Tindastól. En í þriðja leikhluta skildi leiðir. 

„Axel setti þá niður þrjá risaþrista og Helgi var að setja niður skot líka. Pétur skoraði úr þremur vítum snemma í leikhlutanum til að koma forskotinu upp í níu stig. Þeir fengu strax auðvelt stig. Þegar lið fá þægilegar körfur í upphafi seinni hálfleiks þá komast allir í takt og þá er kominn trú inn í leikmannahópinn.“

Liðin hafa mæst fimm sinnum í vetur og hefur Tindastóll unnið þrjá leiki en KR tvo. Aldrei hefur munurinn á liðunum verið minni en tuttugu og eitt stig í stökum leikjum í vetur. Spurður um þetta sagðist Brynjar ekki sjá slíkt fyrir sér í næsta leik. „Þetta er ótrúlega skrítið og ég veit ekki hvað veldur. Í úrslitakeppninni geta verið sveiflur á milli leikja og sérstaklega í fyrstu tveimur en ég hef litla trú á að þriðji leikurinn verði jafnmikið burst og í fyrstu tveimur leikjunum,“ sagði Brynjar í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert