Haukar sigri frá titlinum

Dagbjört Dögg Karlsdóttir úr Val með boltann á Ásvöllum í …
Dagbjört Dögg Karlsdóttir úr Val með boltann á Ásvöllum í kvöld en Whitney Frazier úr Haukum verst henni. mbl.is/Árni Sæberg

Haukar eru 2:1 gegn Val í úrslitarimmunni um  Íslandsmeistaratitil kvenna í körfuknattleik eftir sigur 96:85 á heimavelli sínum á Ásvöllum í kvöld. Vinna þarf þrjá leiki til að verða Íslandsmeistari. 

Til þessa hafa allir þrír leikirnir unnist á heimavelli en liðin mætast næst á Hlíðarenda á fimmtudagskvöldið. 

Leikurinn í kvöld var fjörugur og skemmtilegur þar sem sóknarleikur var í fyrirrúmi. Haukar höfðu yfir 51:45 að loknum fyrri hálfleik en lengst af í fyrri hálfleik var leikurinn býsna jafn. Í upphafi síðari hálfleiks náðu Haukar frábærum kafla og náðu miklu forskoti 69:51. 

Valskonur gáfust hins vegar ekki upp og hleyptu spennu í leikinn á ný. Þegar enn voru nokkrar mínútur eftir höfðu þær minnkað muninn niður í þrjú stig en nær komust þær ekki. Hafnfirðingar slitu sig aftur frá þeim og lönduðu sigrinum. 

Whitney Frazier var stigahæst með 28 stig en Þóra Kristín Jónsdóttir átti frábæran leik og gerði 22 stig og setti niður fjögur þriggja stiga skot. Þá skilaði Helena Sverrisdóttir þrefaldri tveinnu en hún skoraði 16 stig, tók 10 fráköst og gaf 14 stoðsendingar.

Aalyah Whiteside skoraði 24 stig fyrir Val og Elín Sóley Hrafnkelsdóttir var með 18. 

Lið Hauka: Þóra Kristín Jónsdóttir (fyrirliði), Helena Sverrisdóttir, Stefanía Ósk Ólafsdóttir, Sigrún Björg Ólafsdóttir, Rósa Björk Pétursdóttir, Magdalena Gísladóttir, Hrefna Ottósdóttir, Whitney Michelle Frazier, Þórdís Jóna Kristjánsdóttir, Anna Lóa Óskarsdóttir, Ragnheiður Einarsdóttir, Fanney Ragnarsdóttir. 

Lið Vals: Guðbjörg Sverrisdóttir (fyrirliði), Kristín María Matthíasdóttir, Hallveig Jónsdóttir, Bylgja Sif Jónsdóttir, Dagbjört Dögg Karlsdóttir, Aalyah Whiteside, Regína Guðmundsdóttir, Elín Sóley Hrafnkelsdóttir, Dagbjört Samúelsdóttir, Bergþóra Tómasdóttir, Ásta Júlía Grímsdóttir. 

Haukar 96:85 Valur opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert