„Nánast eins og hittni á æfingum“

Sigrún Björg Ólafsdóttir og Guðbjörg Sverrisdóttir í leiknum í kvöld.
Sigrún Björg Ólafsdóttir og Guðbjörg Sverrisdóttir í leiknum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta er nánast eins og hittni á æfingum,“ sagði Darri Freyr Atlason, þjálfari Vals, í samtali við mbl.is eftir tapið fyrir Haukum 96:85 í þriðja leik liðanna í úrslitarimmu Íslandsmóts kvenna í körfuknattleik. Haukar hittu 48% fyrir utan þriggja stiga línuna í leiknum. Haukar eru 2:1 yfir í rimmunni en vinna þarf þrjá leiki til að verða meistari. 

Að loknum fyrri hálfleik var staðan 51:45 fyrir Haukum en í upphafi síðari hálfleiks kom kafli þar sem Haukar juku muninn upp í 69:51. „Þessar upphafsmínútur í seinni hálfleik gáfu ágæta mynd af því sem fór úrskeiðis hjá okkur í leiknum. Þá settu þær niður fjóra þrista í röð að ég held sem eru stór hluti af þessum fjórtán þristum sem þær settu niður í leiknum. 48% þriggja stiga nýting + 17 sóknarfráköst gerir það að verkum að það er rosalega erfitt fyrir okkur að vinna leikinn. Við höfum heilmikið um þessa þætti að segja. Við þurfum að vera fljótari að hlaupa í þær við þriggja stiga línuna og frákasta betur. Hjá þeim er grjóthart að setja þessa þrista niður. Þetta er nánast eins og hittni á æfingum. En það er aumingjaskapur hjá okkur að horfa á þetta og segja að þær hafi bara hitt vel. Við gerðum ekki nógu vel í vörninni,“ sagði Darri en hann sá glitta í góða frammistöðu um tíma í kvöld en í fjórða leikhluta tókst Val að minna forskotið niður í þrjú stig.

„Í síðasta leik fannst mér við spila að megninu til eins og við gerðum í byrjun fjórða leikhluta hér í kvöld. En sá kafli var bara alltof stuttur og við þurfum að finna leiðir til að lengja hann. Svo fannst mér stundum í kvöld eins og við hefðum getað spilað af meiri ákefð og töffaraskap.“

Darri Freyr Atlason
Darri Freyr Atlason mbl.is/Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert