Sandra í oddaleik - Jakob úr leik - Haukur í sigurliði

Sandra Lind Þrastardóttir fer í oddaleik um danska meistaratitilinn.
Sandra Lind Þrastardóttir fer í oddaleik um danska meistaratitilinn. mbl.is/Styrmir Kári

Fjórir íslenskir atvinnumenn í körfuknattleik voru á ferðinni með liðum sínum í kvöld og vegnaði misjafnlega. Sandra Lind Þrastardóttir er komin í oddaleik um danska meistaratitilinn en Jakob Örn Sigurðarson er fallinn út í undanúrslitum í Svíþjóð.

Sandra og samherjar í Hörsholm unnu nauman útisigur á Stevnsgade, 74:73, í fjórða leik úrslitaeinvígisins í Danmörku en þær Stevnsgade hefði tryggt sér meistaratitilinn með sigri. Nú fær Hörsholm hinsvegar tækifærið á sínum heimavelli á laugardaginn.

Sandra lék í níu mínútur í kvöld og náði ekki að skora en tók tvö fráköst fyrir Hörsholm.

Jakob Örn og félagar í Borås töpuðu fyrir Norrköping á útivelli, 70:56, í fimmta leik undanúrslitanna í Svíþjóð og Norrköping vann þar með einvígið 4:1. Borås hefur þar með lokið keppni á þessu tímabili en Norrköping leikur um meistaratitilinn.

Jakob lék í 33 mínútur með Borås og var næststigahæstur með 12 stig. Hann átti auk þess þrjár stoðsendingar og tók eitt frákast.

Í Frakklandi voru íslensku landsliðsmennirnir Martin Hermannsson og Haukur Helgi Pálsson á ferð með sínum liðum í A-deildinni.

Haukur fagnaði heimasigri með Cholet gegn Elan Bernais, 86:76. Hann skoraði 9 stig, tók 7 fráköst og átti eina stoðsendingu á 19 mínútum.

Martin tapaði hinsvegar með Chalons-Reims á heimavelli gegn Lyon-Villeurbanne, 90:99. Martin skoraði 9 stig, átti 5 stoðsendingar og tók eitt frákast en hann spilaði í 25 mínútur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert