KR meistari fimmta árið í röð

Jón Arnór Stefánsson stöðvar áhlaup Tindastóls í kvöld og kemur …
Jón Arnór Stefánsson stöðvar áhlaup Tindastóls í kvöld og kemur muninum aftur upp í fimm stig í 3. leikhluta. mbl.is/Árni Sæberg

KR varð í kvöld Íslandsmeistari  karla í körfuknattleik og setti þar með met á Íslandsmótinu sem liðið jafnaði í fyrra. KR hafði betur gegn Tindastóli í DHL-höllinni í Frostaskjóli 89:73. KR sigraði samtals 3:1 í rimmunni.

KR-ingar voru geysilega einbeittir í smekkfullu KR-heimilinu í kvöld. Þeir létu ekki slá sig út af laginu þótt Skagfirðingar skoruðu fyrstu sjö stig leiksins. KR-ingar svöruðu með því að skora næstu tíu. Þeir náðu miklu forskoti strax í fyrri hálfleik og voru þá um tíma átján stigum yfir. Að loknum fyrri hálfleik var staðan 44:33 fyrir KR.

Tindastóli tókst þó að hleypa spennu í leikinn í þriðja leikhluta. Þá minnkaði liðið muninn niður í aðeins þrjú stig. Liðinu tókst þó ekki að komast yfir þann sálfræðiþröskuld að komast yfir eftir að hafa lent átján stigum undir. Gamli refurinn  Jón Arnór Stefánsson keyrði í gegnum miðja vörn Tindastóls og lagði knöttinn ofan í. Í framhaldinu fóru KR-ingar með muninn upp í tíu stig og eftir það átti Tindastóll aldrei raunhæfa möguleika. KR-ingar lönduðu sigrinum af öryggi í mikilli stemningu í KR-heimilinu.

Finnur Freyr Stefánsson, a.k.a Finnur sem allt vinnur, er á sínu fimmta keppnistímabili sem þjálfari KR og hefur skilað Íslandsmeistaratitlinum í öll skiptin. Brynjar Þór Björnsson, Pavel Ermolinskij og Darri Hilmarsson hafa einnig verið í liðinu síðustu fimm tímabil. 

KR sló Njarðvík út 3:0 í 8-liða úrslitum, Hauka 3:1 í undanúrslitum og sigraði Tindastól 3:1 í úrslitum eins og áður segir. 

Kristófer Acox skoraði 23 stig í kvöld og var stigahæstur hjá KR en hann var mjög drjúgur í úrslitakeppninni. Brynjar Þór Björnsson gerði 16 stig og Jón Arnór Stefánsson skoraði 14. Sigtryggur Arnar Björnsson var stigahæstur með 27 stig hjá Tindastóli og Antonio Hester skoraði 15 stig. 

Á ýmsu gekk hjá KR í úrslitakeppninni. Liðið var laskað þar sem Jón Arnór glímdi við nárameiðsli og var ekki heill heilsu þótt hann spilaði flesta leikina. Brynjar snéri aftur eftir handarbrot í undanúrslitum gegn Haukum og náði sér betur á strik en flestir áttu von. KR-ingar dóu ekki ráðalausir og kölluðu á Helga Má Magnússon frá höfuðborg Bandaríkjanna, sem hætti vorið 2016, og hann skilaði sínu. Þá kom einnig Marcus Walker sem var löglegur þar sem hann hafði spilað bikarleik fyrir b-lið KR í vetur. Walker reyndist KR vel í úrslitarimmunni því hann gat hjálpað til við að valda bakverði Tindastóls, Sigtrygg og Pétur Rúnar Birgisson.

Tindastóll varð bikarmeistari í vetur og pakkaði þá KR saman í úrslitaleiknum í Laugardalshöll. Var það fyrsti stóri titill félagsins í meistaraflokki. 

Gangur leiksins: 5:7, 12:9, 14:9, 24:12, 29:18, 37:21, 39:25, 44:33, 46:41, 52:43, 59:45, 67:49, 69:53, 77:63, 84:71, 89:73.

KR: Kristófer Acox 23/15 fráköst, Brynjar Þór Björnsson 16/4 fráköst, Jón Arnór Stefánsson 14/5 fráköst, Darri Hilmarsson 11/5 fráköst/7 stoðsendingar, Pavel Ermolinskij 9/10 fráköst/5 stoðsendingar, Kendall Pollard 9/5 fráköst, Björn Kristjánsson 5, Marcus Walker 2.

Fráköst: 37 í vörn, 11 í sókn.

Tindastóll: Sigtryggur Arnar Björnsson 27, Antonio Hester 15/10 fráköst, Pétur Rúnar Birgisson 14/10 fráköst/9 stoðsendingar, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 6, Axel Kárason 6, Viðar Ágústsson 3, Friðrik Þór Stefánsson 2.

Fráköst: 22 í vörn, 5 í sókn.

Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Leifur S. Gardarsson, Kristinn Óskarsson.

Úr leik KR og Tindastóls í kvöld.
Úr leik KR og Tindastóls í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg
KR 89:73 Tindastóll opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert