Brynjar meistari í áttunda sinn

Brynjar Þór Björnsson og Darri Hilmarsson eru á meðal sigursælustu …
Brynjar Þór Björnsson og Darri Hilmarsson eru á meðal sigursælustu leikmanna í sögu Íslandsmótsins. mbl.is/Árni Sæberg

Brynjar Þór Björnsson, fyrirliði KR, varð í gær Íslandsmeistari í körfuknattleik í áttunda sinn og er þá einungis miðað við meistaraflokk. 

Eins og fram hefur komið setti KR met með því að vinna titilinn fimmta árið í röð. Í öll skiptin undir stjórn Finns Freys Stefánssonar. 

Brynjar varð fyrst meistari sem ungur leikmaður í KR-liðinu árið 2007. Hann varð einnig meistari 2009, 2011 og 2014-2018. Brynjar hefur eins og KR unnið sjö af síðustu tíu Íslandsmeistaratitlum. Í hin þrjú skiptin hafa Hólmarar og Grindvíkingar fengið bikarinn í hendurnar. 

Darri Hilmarsson varð meistari í sjöunda sinn en hann var ekki með KR árið 2011. Lék þá með Hamri í Hveragerði. Darri verður ekki með KR næsta vetur þar sem hann flyst búferlum til Svíþjóðar. 

Helgi Már Magnússon kom við sögu í nokkrum leikjum í úrslitakeppninni og bætti við sínum sjötta Íslandsmeistaratitli. Hann vann fyrst sem ungur leikmaður árið 2000 og aftur þegar KR stillti upp draumaliði sínu árið 2009. Hann vann einnig 2014, 2015 og 2016 en hugðist þá hætta vegna búferlaflutninga til Bandaríkjanna. 2007, og 2011 var Helgi í atvinnumennsku. 

Pavel Ermolinskij hefur sex sinnum orðið Íslandsmeistari. Síðustu fimm skipti en einnig árið 2011. Pavel er einn af fáum leikmönnum meistaraliðs KR sem ekki er uppalinn í KR en hann lék með Skallagrími og ÍA í yngri flokkunum. 

Jón Arnór Stefánsson hefur fjórum sinnum orðið meistari með KR en hefur aðeins leikið sex tímabil hérlendis, þrjú þeirra ungur að árum. Fyrsta titilinn vann Jón sem ungur leikmaður árið 2000 og aftur 2009 þegar hann kom heim úr atvinnumennsku í eitt ár. Jón flutt heim sumarið 2016 og hefur unnið síðustu tvö ár með KR. 

Sigurður Þorvaldsson varð meistari í þriðja sinn og er sá eini í liðinu sem unnið hefur með tveimur liðum. Sigurður hefur unnið síðustu tvö árin með KR en varð einnig meistari með Snæfelli árið 2010. 

Marcus Walker sem kom til KR í miðri úrslitakeppni hefur áður orðið meistari með KR en það var árið 2011. Eru þetta einu tímabilin hans á Íslandi. 

Jón Arnór hefur unnið síðustu þrjú skipti sem hann hefur …
Jón Arnór hefur unnið síðustu þrjú skipti sem hann hefur spilað hérlendis. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert