Meistaratitillinn til Golden State

Leikmenn Golden State fagna með verðlaunin í leikslok.
Leikmenn Golden State fagna með verðlaunin í leikslok. AFP

Golden State Warriors varð í nótt NBA-meistari í körfuknattleik annað árið í röð og í þriðja sinn á fjórum árum með því að sigra Cleveland Cavaliers örugglega á útivelli, 108:85.

Golden State vann þar með einvígið 4:0 en þetta er fjórða árið í röð sem þessi tvö lið spila til úrslita um NBA-titilinn.

Golden State var yfir í hálfleik, 61:52, og gerði út um leikinn í þriðja leikhluta en staðan að honum loknum var 86:65.

Stephen Curry skoraði 37 stig fyrir Golden State, Kevin Durant var með 20 stig, 12 fráköst og 10 stoðsendingar, eða þrefalda tvennu, og Andre Iguodala skoraði 11 stig.

LeBron James skoraði 23 stig fyrir Cleveland, átti 8 stoðsendingar og tók 7 fráköst og Kevin Love skoraði 13 stig. James upplýsti eftir leikinn að hann hefði spilað þrjá síðustu leikina handarbrotinn en samkvæmt heimildum ESPN meiddi hann sig að loknum fyrsta úrslitaleiknum þegar hann sló bylmingshögg í töflu í búningsklefa liðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert