Hlutverk mitt hjá félaginu gæti breyst

Kristófer Acox skrifaði undir tveggja ára samning við KR í ...
Kristófer Acox skrifaði undir tveggja ára samning við KR í dag. mbl.is/Bjarni Helgason

„Planið hjá mér var að fara út í atvinnumennsku eftir tímabilið en hlutirnir hafa aðeins breyst. Ég hef átt í viðræðum við KR, ásamt öðrum félögum en þegar að ég frétti af því að Ingi væri að koma aftur heim þá var þetta aldrei spurning hjá mér,“ sagði Kristófer Acox, leikmaður körfuknattleiksdeildar KR en hann skrifaði undir tveggja ára samning við félagið í dag.

„Ég átti gott spjall við Jón líka sem ákvað að taka slaginn og hann vildi endilega hafa mig heima. Það er vissulega margt sem spilar hérna inn í en heilt yfir þá tel ég að það muni bara gera mér gott að taka eitt ár í viðbót hjá KR. Ég verð þá bara tilbúnari til þess að takast á við atvinnumennskuna, þegar þar að kemur. Ég er með opinn samning og ef það kemur eitthvað spennandi upp á borðið þá get ég alltaf farið út en ég stefni á að klára þetta tímabil með KR.“

Kristófer reiknar með því að vera í öðruvísi hlutverki en hann er vanur hjá KR á næstu leiktíð undir stjórn Inga Þórs.

„Ég er búinn að spila fyrir Finn núna síðustu tvö ár þannig séð þar sem ég tek úrslitakeppnina með KR, 2017. Við erum að fá nýtt blóð inn í þetta með komu Inga. Við töluðum um það eftir titilinn í vor að það væri nýr kafli að taka við hjá liðinu og hvort sem við vinnum titilinn eða ekki tel ég að hlutverk mitt í ár verði öðruvísi. Ég á von á því að fá að spila meira en ég hef verið að gera. Þetta var rétt ákvörðun hjá mér að skrifa undir nýjan samning og vera áfram í Vesturbænum," sagði Kristófer að lokum.

mbl.is