Sex spennandi möguleikar fyrir LeBron

LeBron James er samningslaus og mun að öllum líkindum yfirgefa …
LeBron James er samningslaus og mun að öllum líkindum yfirgefa Cleveland Cavaliers í sumar. AFP

LeBron James, einn besti körfuknattleiksmaður sögunnar er samningslaus hjá félagi sínu Cleveland Cavaliers. LeBron dró félagið í lokaúrslit NBA-deildarinnar vestanhafs þar sem Cavaliers töpuðu 4:0 fyrir Golden State Warriors. Yfirburðir Warriors hafa verið svakalegir í NBA-deildinni, síðastliðinn fjögur ár en liðið hefur farið fjórum sinnum í lokaúrslit deildarinnar, líkt og Cleveland og unnið í þrígang. LeBron íhugar nú framtíð sína en hann getur samið við öll 30 lið deildarinnar. 

Los Angeles Lakers þykir líklegasti áfangastaður hans samkvæmt veðbönkum. Lebron á tvær fasteignir í glamúr borginni og liðið hefur fjármagn og bolmagn til þess að búa til afar öflugt lið eftir að liðið skipti þeim Larry Nance Jr. og Jordan Clarkson til Cleveland á miðju tímabili. Houston Rockets er annar líklegasti áfangastaðurinn en liðið er mjög vel mannað og komst yfir gegn Golden State, 3:2 í undanúrslitum deildarinnar. Hjá Houston myndi hann hitta fyrir James Harden og góðan félaga sinn, Chris Paul en Houston liðið var það lið sem þótti líklegast til að skáka Warriors.

LeBron gæti gengið til liðs við núverandi meistara í Golden …
LeBron gæti gengið til liðs við núverandi meistara í Golden State Warriors. AFP

Þá hafa Boston Celtics og Philadelphia 76ers einnig verið nefnd til sögunnar sem hugsanlegir áfangastaðir. Þetta eru tvö sterkustu liðin í Austurdeildinni, ásamt Cleveland. Bæði lið eru með unga og mjög spennandi leikmannahópa og eiga þau framtíðina fyrir sér. LeBron þyrfti ekki að draga vagninn í þessum liðum, þrátt fyrir að vera reynslumesti leikmaðurinn í báðum liðum. Umdeildasti valkosturinn væri sá ef að LeBron ákveður að fara til Golden State Warriors. ESPN hefur greint frá því að LeBron sé opinn fyrir því að færa sig yfir til meistaranna en liðið þyrfti að láta eina af fjórum stjörnum liðsins fara fyrir James. Klay Thompson er sá leikmaður sem þykir líklegast að liðið myndi losa sig við en þá myndi þrír af fimm bestu leikmönnum NBA-deildarinnar spila með Warriors.

LeBron gæti einnig framlengt samning sinn við Cleveland Cavaliers, þótt það sé talið ólíklegt. Hann hefur skilað titli í hús fyrir borgina, þeim fyrsta í 52 ár og vilja margir meina að starfi hans sé lokið þar á bæ. Ef hann vill bara bæta við sig nokkrum titlum áður en hann hættir fer hann til Warriors. Ef hann vill taka þátt í einhverju nýju og spennandi gæti hann haldið sig í Austurdeildinni og ef hann vill skáka meisturum Warriors og fara erfiðu leiðina að titlinum gæti hann valið Houston eða Lakers. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert