Kom beint af fjöllum kastandi heyrúllum

Haukur Helgi Pálsson verður í eldlínunni með íslenska landsliðinu þegar …
Haukur Helgi Pálsson verður í eldlínunni með íslenska landsliðinu þegar liðið mætir Búlgaríu og Finnlandi í undankeppni HM í lok mánaðarins. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta verkefni leggst vel í mig, þrátt fyrir að það sé eitthvað aðeins um það að menn séu fjarverandi. Mórallinn í hópnum er mjög góður, það er mikið af ungum leikmönnum í hópnum og blandan er góð,“ sagði Haukur Helgi Pálsson, leikmaður íslenska landsliðsin í körfuknattleik á æfingu liðsins á Ásvöllum í dag.

Íslenska liðið mætir Búlgaríu og Finnlandi ytra í lokaleikjum sínum í undankeppni HM þann 29. júní og 2. júlí næstkomandi. Sigur í öðrum hvorum leiknum þýðir að Ísland fer áfram í næstu umferð keppninnar þar sem E og F-riðill undankeppninnar blandast saman.

„Æfingahópurinn stendur saman af leikmönnum sem eiga allir heima í landslinu. Margir hérna hafa átt fast sæti í liðinu, undanfarin ár og svo eru aðrir hérna sem eru að reyna sanna sig. Það er mikil samkeppni um stöður í liðinu en hún er af hinu góða. Við erum allir vinir utan vallar en svo tökum við aðeins á því á æfingum. Ég lít á Búlgaríu leikinn sem úrslitaleik fyrir okkur. Ef það klikkar, sem á ekki að gerast þá sjáum við hvað gerist. Við tökum einn leik fyrir í einu og einbeitum okkur núna að Búlgaríu.“

Haukur Helgi Pálsson segir að það sé draumur allra leikmanna …
Haukur Helgi Pálsson segir að það sé draumur allra leikmanna að spila á HM. mbl.is/Árni Sæberg

Draumur að komast á HM

Ísland hefur aldrei komast á heimsmeistaramótið í körfubolta og viðurkennir Haukur að það sé draumur hjá mörgum leikmönnum liðsins.

„Það væri ristastórt fyrir okkur að komast á HM. Það hefur sýnt sig og sannað að Evrópumeistaramótið hefur verið góður gluggi fyrir okkur. Það er komin góð stærð í hópinn, meðal annars með tilkomu Tryggva, Hjálmars, Breka og Jón Axels þannig að ég get kannski farið að færa mig aftur í mína stöðu. Þetta eru risastórir leikir fyrir okkur og það er alltaf gaman að spila þá.“

Tryggvi Snær Hlinason tekur þátt í nýliðavali NBA-deildarinnar.
Tryggvi Snær Hlinason tekur þátt í nýliðavali NBA-deildarinnar. Ljósmynd/Valencia

Frábært fyrir íslenskan körfubolta

Tryggvi Snær Hlynason tekur þátt í nýliðavali NBA-deildarinnar í Bandaríkjunum sem fram fer í næstu viku en ekki er langt síðan að hann byrjaði að æfa körfubolta á Akureyri.

„Maður er ennþá að reyna átta sig á því að Tryggvi verði í þessu nýliðavali. Það er í raun hálf ótrúlegt og maður trúir þessu varla. Það yrði frábært fyrir íslenskan körfubolta ef hann kæmist inn í NBA-deildina. Það hefur sýnt sig í gegnum tíðina að við Íslendingar eigum fullt erindi í að spila í þessum stærstu atvinnumannadeildum. Ef hann myndi komast inn í deildina Vestanhafs myndi það beina augunum ennþá meira að litla Íslandi. Við erum búnir að grínast mikið með það að Tryggvi hafi komið inn í körfuboltann, gangandi niður af fjöllum, kastandi heyrúllum á undan sér. Þetta er frábær strákur og það er ekki annað hægt en að samgleðjast með honum,“ sagði Haukur Helgi að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert