Sætur sigur gegn Dönum

Anna Lóa Óskarsdóttir, Hulda Ósk Bergsteinsdóttir og Ragnheiður Björk Einarsdóttir.
Anna Lóa Óskarsdóttir, Hulda Ósk Bergsteinsdóttir og Ragnheiður Björk Einarsdóttir. FIBA

Íslenska kvenna­landsliðið í körfu­bolta skipað leik­mönn­um 20 ára og yngri vann sætan og dramatískan 59:57-sigur á Danmörku í öðrum leik sínum í B-deild Evr­ópu­móts­ins sem fram fer í Rúm­en­íu um þess­ar mund­ir.

Nokkuð jafnræði var með liðinum í fyrsta leikhluta en þær dönsku fóru að síga aðeins fram úr í öðrum, unnu hann með átta stigum og voru sex stigum yfir í hálfleik.

Íslensku stelpurnar voru þó ekki hættar og léku á als oddi í þriðja leikhluta og unnu hann með átta stigum. Thelma Ágústsdóttir og Dagbjörg Karlsdóttir voru stigahæstar í liðinu, báðar með 12 stig en Hulda Bergsteinsdóttir kom þar á eftir með 11. Thelma átti svo einnig 11 fráköst.

Stelpurnar voru mest 12 stigum yfir í fjórða og síðasta leikhlutanum en síðbúið áhlaup þeirra dönsku hleypti mikilli spennu í leikinn. Þær jöfnuðu metin í 56:56-áður en Björk setti niður mikilvæga körfu þegar 22 sekúndur voru eftir. Bæði lið nýttu svo eitt vítakast hvort í restina.

Ísland mátti þola 75:48-tap í fyrsta leiknum í gær gegn Rúmeníu en hefur nú tvö stig eftir tvær umferðir. Næst mæta stelpurnar okkar Tékklandi á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert