Gestgjafarnir of sterkir í 16-liða úrslitunum

Snjólfur Stefánsson skýtur að körfunni í leiknum í kvöld.
Snjólfur Stefánsson skýtur að körfunni í leiknum í kvöld. Ljósmynd/FIBA

U20 ára landslið karla í körfuknatt­leik er úr leik í A-deild Evr­ópu­meist­ara­móts­ins sem fram fer í Þýskalandi eftir 77:63-tap gegn gestgjöfunum í kvöld.

Strákarnir fóru afleitlega af stað og töpuðu fyrsta leikhlutanum með 24 stiga mun en náðu svo aðeins að laga stöðuna eftir því sem á leið. Þeim tókst að lokum að vinna fjórða og seinasta leikhlutan 28:14 og söxuðu vel niður á forystu heimamanna en það dugði þó ekki til.

Árni Hrafnsson var stigahæstur hjá Íslandi með 17 stig en þar á eftir kom Bjarni Jónsson með 16. Snjólfur Stefánsson tók níu fráköst og Ingvi Guðmundsson var með átta stoðsendingar.

Nú tekur við að spila um 9.-16. sætið í A-deildinni og mæta íslensku strákarnir liði Úkraínu á morgun kl. 18:15 að íslenskum tíma. Liðin sem hafna í neðstu þremur sætunum falla niður í B-deildina. Með sigri á morgun eru strákarnir öruggir um sæti sitt í deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert