Strákarnir kvöddu með stórsigri

Íslenska liðið á EM í Slóveníu.
Íslenska liðið á EM í Slóveníu. Ljósmynd/fiba.basketball

Íslenska karlalandsliðið í körfuknattleik, skipað leikmönnum 20 ára og yngri, vann Rúmeníu í lokaleik sínum á Evrópumótinu í Slóveníu í morgun, 103:84, og hafnaði þar með í fimmtánda sæti á mótinu.

Íslensku strákarnir höfðu tapað öllum sínum leikjum á mótinu og ljóst var eftir ósigur gegn Grikkjum í gær að þeir væru fallnir niður í B-deild. Þeir létu það ekki trufla sig í lokaleiknum. Staðan í hálfleik var 47:40, íslenska liðinu í hag, og úrslitin réðust í þriðja leikhluta en að honum loknum stóð 80:58.

Þórir Þorbjarnarson skoraði 19 stig, Eyjólfur Halldórsson 18, Sigurkarl Jóhannesson 16 og Jón Arnór Sverrisson var með 13 stig, 14 stoðsendingar og 12 fráköst, eða þrefalda tvennu.

Arnór Hermannsson gerði 12 stig, Bjarni Jónsson 9, Hákon Hjálmarsson 7, Ingvi Þór Guðmundsson 5 og Snjólfur Stefánsson 4 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert