Drengjalið Kosovo verður með á EM

Ágúst Björgvinsson er þjálfari U16 ára landsliðsins sem tekur þátt …
Ágúst Björgvinsson er þjálfari U16 ára landsliðsins sem tekur þátt í Evrópumótinu í Bosníu. mbl.is/Hari

B-deild Evrópumótsins í körfuknattleik, skipuð leikmönnum 16 ára og yngri, hefst í dag en leikið er í Sarajevo í Bosníu en mótið stendur yfir dagana 9.-18. ágúst. Ísland leikur í C-riðli keppninnar, ásamt Póllandi, Finnlandi, Ungverjalandi, Kýpur og Búlgaríu. 

Landslið Kosovo er einnig skráð til leiks en óvíst var um þátttöku liðsins á mótinu í gær þar sem að leikmenn landsliðsins fengu ekki vegabréfsáritun. Sejo Bukva, varaformaður körfuknattleikssambands Bosníu, sendi frá sér tilkynningu í dag þar sem hann sagðist eiga von á því að drengirnir frá Kosovo fengju vegabréfsáritun í dag.

„Það er miður að 16 ára börn séu fórnarlömb pólitískra deilna. Pólitík á ekkert skylt við íþróttir ungmenna og það er óásættanlegt að svona hlutir skuli gerast í íþróttum og ég mun aldrei styðja svona hegðun. Ég reikna með því að drengirnir frá Kosovo fái vegabréfsáritun á næstu klukkustundum og að málið leysist sem fyrst,“ sagði Bukva.

Drengjalið Kosovo átti að hefja leik í dag gegn heimamönnum í Bosníu en fari svo að liðið verði ekki komið með vegabréfsáritun fyrir þann tíma, mun leikurinn fara fram, síðar í keppinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert