Stelpurnar unnu stórsigur á Albaníu

Birna Valgerður Benónýsdóttir skoraði 12 stig fyrir íslenska liðið í ...
Birna Valgerður Benónýsdóttir skoraði 12 stig fyrir íslenska liðið í dag og tók 8 fráköst. FIBA

Íslenska kvennalandsliðið í körfuknattleik, skipað leikmönnum 18 ára og yngri, vann í dag stórsigur á Albaníu í leik um 17.-24. sæti í B-deild Evrópumótsins sem fram fer í Austurríki en leiknum lauk með 89:50-sigri íslenska liðsins.

Anna Svansdóttir var stigahæst í íslenska liðinu í dag með 15 stig og þær Ástrós Ægisdóttir, Ásta Grímsdóttir og Birna Valgerður Benónýsdóttir skoruðu allar 12 stig hver. Þá tók Ásta 10 fráköst og Birna Valgerður tók 8 fráköst og gaf tvær stoðsendingar.

Íslenska liðið mun því leika um 17. sæti mótsins á morgun en ekki er enn þá ljóst hver andstæðingur liðsins verður og kemur það í ljós síðar í dag. Leikurinn fer fram á morgun og hefst hann klukkan 16 að íslenskum tíma.

mbl.is