U16 í átta liða úrslit á EM

U16 ára landsliðið er komið í átta liða úrslit á …
U16 ára landsliðið er komið í átta liða úrslit á EM. Ljósmynd/Fiba

Íslenska drengjalandsliðið í körfuknattleik, skipað leikmönnum 16 ára og yngri, vann í kvöld 88:78-sigur á Kýpur í framlengdum leik í B-deild Evrópumótsins sem fram fer í Sarajevó í Bosníu. 

Kýpverjar náðu að knýja fram framlengingu með þriggja stiga körfu þegar um fimm sekúndur voru eftir af venjulegum leiktíma og jöfnuðu þeir þar með metin, 74:74. Íslenska liðið var hins vegar mun sterkara í framlengingunni og vann að lokum þægilegan sigur.

Hilmir Hallgrímsson og Friðrik Jónsson voru atkvæðamestir í íslenska liðinu í kvöld með 11 stig hvor. Þá tók Hilmir 8 fráköst og gaf 3 stoðsendingar á meðan Friðrik tók átta fráköst. Ólafur Gunnlaugsson skoraði 10 stig og tók 6 fráköst.

Þetta var lokaleikur íslenska liðsins í riðlakeppninni og endar Ísland í öðru sæti C-riðils. Ísland mætir svo heimamönnum í Bosníu í átta liða úrslitum keppninnar á fimmtudaginn en þrjú efstu liðin í mótinu leika í A-deild Evrópumótsins á næsta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert