Tap fyrir Svíþjóð í fyrsta leik

Stelpurnar töpuðu í dag fyrir Svíþjóð og mæta Svartfjallalandi á …
Stelpurnar töpuðu í dag fyrir Svíþjóð og mæta Svartfjallalandi á morgun. Ljósmynd/KKÍ

Íslenska stúlknalandsliðið í körfuknattleik, skipað leikmönnum 16 ára og yngri, mætti Svíþjóð í dag í fyrsta leik sínum í B-deild Evrópumótsins sem fram fer í Podogorica í Svartfjallalandi. Leiknum lauk með 86:42-sigri Svía en sænska liðið leiddi allan leikinn og gekk íslenska liðinu erfiðlega að halda í við þær sænsku.

Thea Jónsdóttir og Edda Karlsdóttir voru atkvæðamestar í íslenska liðinu með 8 stig hvor og þá tók Thea 3 fráköst og gaf eina stoðsendingu. Eva Davíðsdóttir skoraði 5 stig, tók 1 frákast og gaf 2 stoðsendingar. Þá skoraði Helga Hreiðarsdóttir 5 stig, tók 5 fráköst og gaf eina stoðsendingu.

Íslenska liðið mætir heimakonum í Svartfjallalandi klukkan 18:30 að íslenskum tíma á morgun en ásamt Svíþjóð og Svartfjallalandi leikur Ísland í riðli með Grikklandi, Bretlandi og Makedóníu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert