Palacios í Stjörnuna

Florencia Palacios leikur með Stjörnunni í vetur.
Florencia Palacios leikur með Stjörnunni í vetur. Ljósmynd/Marbo Basket

Körfuknattleiksdeild Stjörnunnar hefur samið við argentínska framherjann Florenciu Palacios og mun hún leika með liðinu á komandi leiktíð. Palacios er alin upp í Argentínu og er einnig með ítalskt vegabréf. Karfan.is greindi frá. 

Hún er 31 árs og hefur leikið víða um Evrópu, m.a. á Ítalíu, Spáni, Danmörku og Svíþjóð. Hún var með 8,9 stig og 3,2 fráköst að meðaltali í leik í Svíþjóð á síðustu leiktíð og hefur hún leikið með argentínska landsliðinu á ferlinum. 

Stjarnan bætti við þeim Jóhönnu Björk Sveinsdóttur, Auði Írisi Ólafsdóttur og Sólrúnu Sæmundsdóttur á dögunum og er Palacios því fjórði leikmaðurinn sem Stjarnan fær til sín fyrir veturinn. 

mbl.is