Grátlegt tap í fyrsta leik Íslands

Martin Hermannsson var stigahæstur í dag með 20 stig á …
Martin Hermannsson var stigahæstur í dag með 20 stig á afmælisdaginn sinn. mbl.is/Árni Sæberg

Íslenska karlalandsliðið í körfuknattleik tapaði fyrir Portúgal, 80:77, í æsispennandi leik í fyrstu viðureign sinni í forkeppni Evrópumótsins 2021 en leikið var í Portúgal. Heimamenn skoruðu sigurkörfuna þegar rétt um 20 sekúndur voru eftir af leiknum.

Fyrri hálfleikur var jafn og spennandi en íslenska liðið byrjaði af krafti með Tryggva Snæ Hlinason fremstan í flokki, en hann skoraði níu stig strax í fyrsta leikhluta. Ísland var fimm stigum yfir að honum loknum, 19:14.

Íslenska liðið var með undirtökin framan af öðrum leikhluta en þá gerðu heimamenn áhlaup, sigu fram úr og tókst að vera yfir þegar flautað var til leikhlés. Staðan 34:33 fyrir Portúgal í hálfleik.

Þriðji leikhluti var kaflaskiptur, svo ekki sé meira sagt. Ísland skoraði sjö stig í röð snemma í leikhlutanum en þá hrökk allt í baklás. Portúgal svaraði með ellefu stigum í röð og íslenska sóknin var bitlaus. Fyrir síðasta hluta voru heimamenn með ellefu stiga forskot, 58:47, og íslenska liðið heillum horfið.

Það var hins vegar fljótt að breytast. Á fyrstu tveimur mínútunum í fjórða leikhluta skoraði Ísland níu stig í röð og opnaði leikinn upp á gátt á ný. Portúgal hélt þó forskotinu á meðan íslenska liðið elti, þangað til Kári Jónsson tók til sinna ráða. Hann skoraði næstu ellefu stig Íslands, þar af með þremur þriggja stiga skotum, og kom íslenska liðinu yfir. Fyrst 70:68 og allt þar til staðan var 77:76 fyrir Ísland.

Portúgal skoraði hins vegar þegar um 20 sekúndur voru eftir. Íslenska liðið reyndi hvað það gat að tryggja sér sigurinn en heimamenn skoruðu úr tveimur vítaskotum í blálokin og unnu þriggja stiga sigur 80:77.

Martin Hermannsson, sem fagnar 24 ára afmælinu sínu í dag, var stigahæstur hjá Íslandi með 20 stig, 8 stoðsendingar og 4 fráköst. Næstur kom Tryggvi Snær Hlinason með 15 stig og Hörður Axel Vilhjálmsson með 14 stig.

Næsti leikur Íslands í forkeppninni verður á heimavelli gegn Belgíu þann 29. nóvember.

Stig Íslands: Martin Hermannsson 20, Tryggvi Snær Hlinason 15, Hörður Axel Vilhjálmsson 14, Kári Jónsson 11, Elvar Már Friðriksson 11, Kristófer Acox 4, Hlynur Bæringsson 2.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

Portúgal 80:77 Ísland opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert