Robinson sagt upp samningi hjá Njarðvík

Gerald Robinson.
Gerald Robinson. Ljósmynd/Njarðvík

Körfuknattleiksdeild Njarðvíkur hefur sagt upp samningi sínum við Gerald Robinson en hann samdi við Suðurnesjaliðið í sumar. 

Þetta kemur fram á heimasíðu Njarðvíkur en þar segir:

„Samningi við Gerald Robinson hefur verið sagt upp og mun Gerald ekki koma til með að leika meira með liði UMFN. Ákvörðun um að láta Robinson fara er að mestu leyti taktísk þar sem að þörfin fyrir betur þenkjandi leikmann í stöðu miðherja er mikil. Robinson stóð sig prýðilega með liði UMFN og þökkum við honum hans framlag og óskum honum alls hins besta í sínum verkefnum.“

Robinson er 34 ára gamall og hefur bæði bandarískan og hollenskan ríkisborgararétt. Hann lék með Haukum tímabilið 2010-2011 og skoraði þá að jafnaði 21 stig auk þess að taka 13,7 fráköst að meðaltali í leik. Robinson lék svo með Hetti á Egilsstöðum í 1. deildinni frá ársbyrjun 2014 og fram á vor. Með Hetti skoraði Robinson um 22 stig að meðaltali í leik auk þess að taka um 10 fráköst í hverjum leik.

mbl.is