Flestir lagt upp laupana eða flutt inn útlendinga

Haukur Óskarsson lofar góðu fyrir tímabilið, að sögn Ívars.
Haukur Óskarsson lofar góðu fyrir tímabilið, að sögn Ívars. mbl.is/Hari

Ívar Ásgrímsson stýrði Haukum til deildarmeistaratitils í körfubolta karla á síðustu leiktíð. Liðinu er hins vegar spáð 8. sæti í Dominos-deildinni í vetur eftir að hafa misst nánast allt byrjunarlið sitt á einu bretti.

„Ég held að þetta sé alveg raunhæf spá. En við höfum verið að spila vel á undirbúningstímabilinu og liðið er vel samsett. Ég er því þokkalega bjartsýnn,“ sagði Ívar við mbl.is í vikunni þegar árleg spá þjálfara, fyrirliða og formanna félaganna í deildinni var kynnt. Haukar hafa misst Kára Jónsson til Barcelona, Emil Barja í KR, Paul Anthony Jones til Stjörnunnar, Breka Gylfason til Bandaríkjanna í nám og Finn Atla Magnússon til Ungverjalands þar sem hann fylgir eftir konu sinni, Helenu Sverrisdóttur.

„Það er ljóst að við höfum misst 4-5 mjög sterka leikmenn, en á móti kemur að við búum vel. Við höfum verið með gott yngri flokka starf og erum með þrjá leikmenn í okkar hópi sem voru í landsliðinu núna í sumar. Þeir spiluðu allir, og stóðu sig allir vel. Haukar voru með flesta leikmenn í íslensku landsliðunum af íslenskum félagsliðum, menn kannski taka það ekki til skoðunar þegar þeir meta þetta,“ sagði Ívar.

Emil Barja hefur verið lykilmaður hjá Haukum en er kominn …
Emil Barja hefur verið lykilmaður hjá Haukum en er kominn til KR núna. mbl.is/Árni Sæberg

Ekki eins svartsýnn og margir hafa verið

„Haukur [Óskarsson] hefur verið mjög góður á undirbúningstímabilinu. Hann lítur mjög vel út, sem og Kristján [Leifur Sverrisson] og Hjálmar [Stefánsson] sem hafa verið með landsliðinu. Ef að Kristján helst meiðslalaus þá lítur þetta þokkalega út hjá honum. Eins og staðan er í dag þá er ljóst að við berjumst ekki um titla, en auðvitað er okkar markmið bara núna að festa okkur í úrslitakeppni og ná sem bestu sæti þar. Okkar markmið er að ná svona 5.-6. sæti og vera svo tilbúnir í úrslitakeppnina. Það tekur smátíma fyrir okkur að búa til nýtt lið en ég er ekki eins svartsýnn og margir hafa verið,“ sagði Ívar, og vísaði þar kannski sérstaklega til sjónvarpsþáttarins Körfuboltakvölds en spekingar þáttarins spá Haukum 11. sæti í deildinni, og þar með falli:

„Körfuboltakvöld hefur aldrei spáð Haukaliðinu góðu gengi. Þeir hafa einu sinni haft rétt fyrir sér, þegar við lentum í veseni fyrir tveimur árum, en meira að segja þegar við fórum alla leið í úrslit og svo í fyrra þá voru þeir hvort sem er alltaf að spá okkur út og að við gætum þetta ekki. Ég bjóst alveg við að okkur yrði spáð mjög slæmu gengi hjá þeim. Þetta hlýtur bara að hvetja okkur til að sýna að við séum betri. En við þurfum ekkert að sýna okkur fyrir þeim, við þurfum bara að sanna það fyrir okkur sjálfum að við séum með fínt lið og að starf Hauka sé gott. Ég held að flest lið hefðu lagt upp laupana eða flutt inn gáma af útlendingum ef þau hefðu misst 4-5 svona leikmenn eins og við gerðum,“ segir Ívar.

Haukar urðu deildarmeistarar á síðustu leiktíð.
Haukar urðu deildarmeistarar á síðustu leiktíð. mbl.is/Hari

Heilt yfir kveðst Ívar ánægður með stöðuna á leikmannahópi sínum, eftir allar breytingarnar sem orðið hafa í sumar:

Frábært að hafa alið upp leikmann Barcelona

„Við erum gríðarlega stoltir af að Kári sé í Barcelona. Mér finnst frábært að geta sagt að við höfum alið upp leikmann sem er í Barcelona. Við erum líka gríðarlega stoltir af því að hafa náð að ala Breka vel upp, hann er kominn í landsliðshóp og góðan skóla í Bandaríkjunum. Finnur fer út með Helenu og það kemur ekkert á óvart, hann er líka kominn í eldri kantinn og við vissum að hann gæti farið að detta út hjá okkur. Emil fer svo í KR, eftir að hafa verið í Haukum síðan hann var 5-6 ára. Hann langaði í nýjar áskoranir og við skildum það alveg. Það eru allir sáttir við þessa ákvörðun hjá Emil og við vonum að honum gangi vel, þó að ég sé nú ekki að segja að ég vilji að KR gangi vel. Það er svo áskorun fyrir aðra leikmenn hjá okkur að stíga upp þegar Emil, sem verið hefur leiðtogi hjá okkur, er farinn, og stýra okkur á hærri stall. Menn þurfa að sýna að við séum stórt lið, með nægan mannskap, og ég tel að svo sé. Þegar líður að úrslitakeppni verðum við betri og betri, og mér líst mjög vel á liðið sem ég er með í höndunum í vetur.“

Haukar mæta Val á Hlíðarenda annað kvöld kl. 19.15, í 1. umferð Dominos-deildarinnar. Á sama tíma mætast Tindastóll og Þór Þ., KR og Skallagrímur, og Grindavík og Breiðablik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert