Ætlum að festa Skallagrím í sessi

Finnur Jónsson hefur áður stýrt Skallagrími í efstu deild.
Finnur Jónsson hefur áður stýrt Skallagrími í efstu deild. mbl.is/Ómar

„Við erum komnir með nokkur ný andlit, missum nokkra frá kjarnanum í fyrra, og erum vel samkeppnishæfir fyrir tímabilið,“ segir Finnur Jónsson, þjálfari Skallagríms í körfubolta karla.

Skallagrímur er mættur aftur upp í úrvalsdeild en er spáð falli þaðan, líkt og Breiðabliki, en þessi lið komu upp úr 1. deildinni í vor.

„Miðað við undanfarin ár er eðlilegt að nýliðum sé spáð falli, og við erum búnir að vera jójó-lið síðustu ár. Þetta er því ekkert óeðlilegt, en við stefnum að sjálfsögðu hærra og ætlum að festa Skallagrím í sessi sem eitt af toppliðunum í deild þeirra bestu,“ segir Finnur. Er hann búinn að fullmóta sinn leikmannahóp?

„Já, svona 97%. Við vorum með þrjá erlenda leikmenn, sá þriðji var til reynslu í viku en við ákváðum að semja ekki við hann og erum því með tvo eins og staðan er núna,“ segir Finnur, loðinn í svörum en eftir að ákveðið var að semja ekki við Ivan Mikulic gæti verið að annar erlendur leikmaður mæti í Borgarnes. Aðspurður hvort hann sæi fyrir sér baráttu margra liða um að forða sér frá falli svaraði Finnur:

„Ég sé bara fyrir mér jafna baráttu í allri deildinni. Að það verði ekki mikið af stórsigrum og stutt á milli hjá topp- og botnliðum. Fyrir mér eru þó þrjú lið fyrir fram sterkust; Stjarnan, Tindastóll og Njarðvík. Mér sýnist þau hafa öflugustu og dýpstu hópana.“

Skallagrímur mætir KR í kvöld í fyrstu umferð Dominos-deildarinnar en fyrsti heimaleikur liðsins er eftir viku gegn Grindavík. Borgnesingar eru þekktir fyrir að styðja við sitt lið:

„Það var mikil stemning í 1. deildinni síðasta vetur, kvennaliðið er í úrvalsdeild líka og þetta er körfuboltabær svo við viljum festa bæði lið eins ofarlega og hægt er. Í 14 manna æfingahópi okkar hjá karlaliðinu eru 10 heimamenn svo við erum mjög sáttir með það,“ segir Finnur.

Fyrsta umferð Dominos-deildar karla hefst í kvöld með fjórum leikjum kl. 19.15. KR mætir Skallagrími, Tindastóll mætir Þór Þ., Grindavík mætir Breiðabliki og Valur tekur á móti Haukum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert