Ég vil vera skemmtikraftur

Julian Boyd átti stórleik í kvöld.
Julian Boyd átti stórleik í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég er mjög ánægður, það er alltaf gott að byrja á sigri,“ sagði Julian Boyd, bandarískur leikmaður KR, í samtali við mbl.is eftir 109:93-sigur á Skallagrími í 1. umferð Dominos-deildar karla í körfubolta í kvöld. 

„Vörnin okkar í fyrri hálfleik var slöpp og við fengum mun fleiri stig á okkur en við hefðum viljað. Við töluðum um að spila betri vörn í seinni hálfleik og byggja ofan á forskotið okkar því það eru margir í liðinu sem geta skorað. Það tókst vel.“

Boyd átti stórleik í kvöld og skoraði 37 stig og tók 12 fráköst. Hann tróð nokkrum sinnum með miklum tilþrifum og skoraði einnig nokkrar þriggja stiga körfur. 

„Ég vil vera skemmtikraftur. Það kveikir í áhorfendum og liðsfélögunum að skora þrista og troða. Ég er sérstaklega ánægður ef það hjálpar til við að ná í sigra.“

Hann er mjög ánægður með tímann sinn á Íslandi til þessa, þótt veðrið sé örlítið verra en hann hefur vanist. 

„Þetta er búið að vera æðislegt. Þetta er fallegt land, en það er farið að kólna núna. Ég þarf að kaupa mér teppi og góðan jakka. Mjög vel hefur verið tekið á móti mér og ég hef ekki yfir neinu að kvarta.“

Hann finnur fyrir pressu að koma til fimmfaldra Íslandsmeistara. 

„Ég sá að þetta lið vann síðustu fimm ár áður en ég kom og ég vil ekki vera skúrkurinn sem náði ekki að verja titilinn,“ sagði Boyd. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert