Hitta allir eins og tittlingar

Finnur Jónsson fylgist með sínum mönnum í kvöld.
Finnur Jónsson fylgist með sínum mönnum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það voru fjórar mínútur í seinni hálfleik þar sem þeir éta okkur og við náðum aldrei almennilega að koma til baka,“ sagði Finnur Jónsson, þjálfari Skallagríms, í samtali við mbl.is eftir 109:93-tap sinna manna gegn KR í 1. umferð Dominos-deildar karla í körfubolta í kvöld. 

„Við náðum ekki stoppum og það var smá meistaraheppni með þeim líka. Þeir eru fimmfaldir meistarar og við vorum að klára sóknirnar okkar illa í seinni hálfleik. Við ætluðum ekki bara að halda í þá, við ætluðum að vinna þennan leik. Það voru jákvæðir og neikvæðir punktar í þessum leik. Við þurfum að skoða betur það sem betur má fara.“

Julian Boyd skoraði 37 stig fyrir KR í sínum fyrsta leik á Íslandi. Finnur segir erfitt að taka einn mann út hjá KR, þar sem aðrir skora þá í staðinn. 

„Við hefðum getað tvöfaldað betur í hann í byrjun. Hann skoraði mjög mikið í fyrri hálfleik en það er erfitt að tvöfalda á einhvern í KR, þeir hitta allir eins og tittlingar og þá er bara næsti maður opinn,“ sagði Finnur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert