Vesturbærinn er enn þá í 107

Ingi Þór Steinþórsson fékk Emil Barja, fyrirliða Hauka, til KR …
Ingi Þór Steinþórsson fékk Emil Barja, fyrirliða Hauka, til KR í sumar.

„Ég held að þetta sé nokkuð raunhæft miðað við stöðuna á öllu og þær miklu breytingar sem hafa orðið,“ segir Ingi Þór Steinþórsson sem stýrir KR til 4. sætis í Dominos-deild karla í körfubolta í vetur ef árleg spá þjálfara, fyrirliða og formanna félaganna í deildinni gengur eftir.

Ingi kveðst ánægður með að vera kominn aftur heim í DHL-höllina þar sem hann stýrir KR í kvöld gegn Skallagrími í 1. umferð. Ingi tekur við af Finni Frey Stefánssyni sem gerði KR að Íslandsmeistara fimm ár í röð, auk þess sem Ingi þarf að glíma við það að liðið hefur misst menn á borð við Kristófer Acox, Brynjar Þór Björnsson og Darra Hilmarsson, auk þess sem Pavel Ermolinskij hefur tekið sér hlé. Þess vegna er kannski ekki skrýtið að Ingi geti hugsað sér að enda í 4. sæti eins og í spánni:

„Í dag tæki ég þessari niðurstöðu, og að fá þar með heimavallarrétt í fyrstu umferð í úrslitakeppninni. Markmiðið okkar er þó náttúrulega að gera betur og við þurfum að sanna það fyrst fyrir okkur sjálfum að við getum það. Við erum alveg með leikmenn sem kunna körfubolta, fínan hóp, en deildin er bara mikið, mikið sterkari en hún hefur verið undanfarin ár. Það er ekkert lið eitthvað illa mannað og einhver auðveldur leikur í boði. Öll lið hafa tök á að styrkja sig eftir þessar nýju reglur um evrópska leikmenn, svo deildin verður mjög jöfn og ég held að það verði ekki afgerandi forysta nokkurra liða,“ segir Ingi. En hefur þá verið slakað á kröfunum hjá KR eftir velmegun síðustu ára?

„Nei, nei. Vesturbærinn breytist ekkert, hann er enn þá í 107 og svona. En við erum bara raunsæ, og ég held að fólk sem spáir í þetta sjái alveg hvað er að gerast. Það eru miklar breytingar. Það hefur verið gríðarlegt afrek hjá KR að verða Íslandsmeistari fimm ár í röð. Hvort það tekst sjötta árið í röð verður að koma í ljós en við reynum allt sem í okkar valdi stendur til að gera það. Við munum leggja allt sem við getum í þetta og ef við gerum það þá getum við verið sáttir.“

Fyrsta umferð Dominos-deildar karla hefst í kvöld með fjórum leikjum kl. 19.15. KR mætir Skallagrími, Tindastóll mætir Þór Þ., Grindavík mætir Breiðabliki og Valur tekur á móti Haukum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert