„Úrslitin segja allt sem segja þarf“

Urald King í treyju Vals frá því á síðustu leiktíð. …
Urald King í treyju Vals frá því á síðustu leiktíð. Hann fór illa með sína gömlu félaga í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta var dálítið skrítið, þessir strákar vita að ég elska þá en þegar körfuboltinn er kominn á gólfið þarf að koma sér að kjarna málsins,“ sagði kátur Urald King, leikmaður Tindastóls, eftir 93:73-sigur á hans gömlu félögum í Val en leikurinn var liður í annarri umferð Dominos-deildarinnar í körfuknattleik.

King lék sína gömlu félaga grátt í kvöld en hann var stigahæsti maður leiksins með 24 stig er Tindastóll vann nokkuð öruggan sigur.

„Við spiluðum vel heilt yfir, við vorum aðeins of hægir í fyrri hálfleik og kannski of mikið að tuða í dómurunum en við ræddum málin í hálfleik og að lokum segja úrslitin allt sem segja þarf.“

Tindastóll er með nokkuð breytt lið frá bikarmeistaratitlinum á síðustu leiktíð en ásamt King hefur meðal annars reynsluboltinn Brynjar Þór Björnsson komið til liðsins ásamt Danero Thomas. King segir liðið enn eiga langt í land með að sýna sínar allra bestu hliðar en þangað til eru leikmenn liðsins fyrst og fremst ánægðir ef þeir landa sigrum.

„Við eigum enn langt í land, þetta er nýtt lið og við erum enn að læra á hver annan, það er gott að taka þennan sigur og við höldum áfram. Auðvitað viltu verða Íslands- og bikarmeistari á hverju ári en við ætlum að taka einn leik í einu. Í kvöld erum við bara ánægðir með sigurinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert