Of margir sem gátu ekki neitt

Ívar Ásgrímsson, þjálfari Hauka.
Ívar Ásgrímsson, þjálfari Hauka. mbl.is/Eggert

„Þetta var hræðilegt og við vorum okkur sjálfum til skammar hér í kvöld, svo einfalt er það,“ sagði Ívar Ásgrímsson, þjálfari Hauka, í samtali við mbl.is eftir 84:66-tap liðsins gegn ÍR í 2. umferð Dominos-deildar karla í körfuknattleik á Ásvöllum í Hafnarfirði í dag.

„Við vorum aldrei tilbúnir í þennan leik. Þeir voru yfir í baráttunni og ýttu okkur hreinlega út úr öllum stöðum á vellinum. Sóknarleikurinn var skelfilegur og við vorum að taka léleg þriggja stiga skot. Við vorum með 13% nýtingu fyrir utan en samt höldum við áfram, allan leikinn, að reyna skot fyrir utan í staðinn fyrir að keyra á körfuna. Útlendingurinn okkar inni í teig var alveg út úr kortinu í þessum leik og toppar það svo með því að fá sína fimmtu villu snemma í fjórða leikhluta.“

Erlendu leikmenn Hauka, þeir Marques Oliver og Matic Macek voru vægast sagt slakir og áttu ekki góðan leik á Ásvöllum í dag.

Hilmar Árni Henningsson var besti maður Hauka í kvöld en …
Hilmar Árni Henningsson var besti maður Hauka í kvöld en hann skoraði 18 stig af bekknum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Skelfileg frammistaða

„Auðvitað vil ég sjá meira frá erlendu leikmönnunum. Marques var skelfilegur í þessum leik og hann átti ekkert skilið. Haukur var ekki nógu góður, sem og allt liðið. Það voru í raun allir leikmenn liðsins slakir. Við vorum búnir að fara vel yfir það fyrir leikinn, hvað við ætluðum að stoppa í leik ÍR-inga en þegar á hólminn var komið stoppuðum við ekki neitt.“

Ívar var ágætlega sáttur með baráttu liðsins í öðrum leikhluta en það var það eina sem þjálfarinn var nokkuð sáttur með úr leiknum.

„Heilt yfir þá vorum við að sætta okkur við það að taka erfið skot, í staðinn fyrir að vera skynsamir og reyna að koma okkur inn í leikinn. Það var í raun ótrúlegt að við skyldum ná að hanga inni í leiknum, miðað við spilamennskuna, og ég skil í sjálfu sér ekki hvernig okkur tókst það. Þegar við minnkum muninn niður í fjögur stig þá fannst mér fín barátta í þessu en það var það eina jákvæða hér í kvöld. Annars var þetta í einu orði sagt skelfilegt,“ sagði Ívar Ásgrímsson í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert