Menn stigu upp og sýndu ábyrgð

Borche Ilievski, þjálfari ÍR.
Borche Ilievski, þjálfari ÍR. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég er mjög ánægður með sigurinn í kvöld en ég er ekki sáttur með spilamennsku liðsins í kvöld,“ sagði Borche Ilievski, þjálfari ÍR, í samtali við mbl.is eftir 92:82-sigur liðsins gegn Breiðabliki í 3. umferð Dominos-deildar karla í körfuknattleik í Seljaskóla í kvöld.

„Við söknuðum Matta í kvöld og það sást á leik okkar. Að sama skapi þá var mjög mikilvægt að byrja á sigri í fyrsta heimaleiknum okkar á tímabilinu. Mér fannst strákarnir stressaðir til að byrja með, sérstaklega í fyrri hálfleik, en í fjórða leikhluta fóru hlutirnir loksins að detta með okkur og við fengum aukið sjálfstraust við það. Við vorum að hitta mjög illa í leiknum heilt yfir og við vorum að taka alltof erfið skot. Í fjórða leikhluta voru ákveðnir leikmenn í liðinu sem stigu upp og sýndu ábyrgð og þeir unnu þennan leik fyrir okkur en ég verð að hrósa Sigurkarli sérstaklega. Hann kom með aukinn kraft inn í þetta, þegar við þurfum á því að halda og það skóp þennan sigur.“

Borche viðurkennir að hans menn hafi verið í miklum vandræðum með sóknarleik Blika í leiknum og hann telur að öll lið í deildinni muni lenda í ákveðnum vandræðum með Blikana í vetur.

Sigurkarl Róbert Jóhannesson skoraði fimm stig í kvöld en þjálfari …
Sigurkarl Róbert Jóhannesson skoraði fimm stig í kvöld en þjálfari hans var mjög ánægður með frammistöðu hans í leiknum. mbl.is/Hari

Ágætis taktur í síðustu leikjum

„Blikarnir eiga hrós skilið. Þeir spila mjög hraðan körfubolta og skjóta mikið á körfuna. Það er erfitt fyrir okkur að spila gegn liði eins þeim því við eigum í miklum vandræðum með að elta og dekka lið sem spila svona. Breiðablik er frábært lið og allir leikir á móti þeim í deildinni í vetur verða erfiðir fyrir hvaða andstæðing sem er. Þeir spiluðu mjög vel í kvöld og það eina sem vantar upp á hjá þeim er að klára leikina sína á sigri.“

ÍR hefur nú unnið tvo leiki í röð, þrátt fyrir að hafa kannski ekki spilað sinn besta leik, og Borche vonast til þess að liðið sýni góða frammistöðu gegn Skallagrími í næstu umferð.

„Við þurfum að aðlagast því að Matti er ekki með okkur þessa stundina og mér fannst leikmennirnir gera það vel á móti Haukum í síðustu umferð og það tókst ágætlega í dag. Það er kominn ágætis taktur í þetta hjá okkur og vonandi getum við haldið uppteknum hætti gegn Skallagrími í næstu umferð,“ sagði Borche Ilievski í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert