Ekkert sem kemur á óvart

Benedikt Guðmundsson á hliðarlínunni í kvöld.
Benedikt Guðmundsson á hliðarlínunni í kvöld. mbl.is/Hari

„Ég er fyrst og fremst ánægður með sigurinn. Við erum nýliðar og markmið okkar númer eitt, tvö og þrjú er að safna stigum í þessari deild,“ sagði Benedikt Guðmundsson, þjálfari KR, í samtali við mbl.is eftir 72:69-sigur liðsins gegn Snæfelli í 4. umferð Dominos-deildar kvenna í körfuknattleik í DHL-höllinni í kvöld.

„Við erum komin með sex stig núna eftir fyrstu fjóra leikin og ég get ekki annað en verið sáttur með það. Ég var nokkuð sáttur með varnarleikinn okkar í dag og heilt yfir fannst mér hann ganga vel. Að sama skapi fannst mér við fá of mikið af auðveldum stigum á okkur. Við byrjum leikinn mjög vel en ég vissi það, eftir fyrsta leikhlutann, að sú forysta myndi ekki endast okkur út leikinn. Við vorum aldrei að fara að rúlla yfir frábært lið Snæfells en það sem ég er kannski mest ánægður með er hversu mikinn styrk við sýndum undir restina, og þá á ég við andlegan styrk.“

Þrátt fyrir góða byrjun KR í leiknum segir Benedikt að það séu lokamínúturnar sem telji og þar hafði KR vinninginn.

Kiana Johnson var öflug í liði KR í kvöld en …
Kiana Johnson var öflug í liði KR í kvöld en hún skoraði 15 stig. mbl.is/Hari

Nóg eftir af tímabilinu

„Ég fór mjög vel yfir leik Stjörnunnar og Snæfells á dögunum og ég átti von á því að þær myndu gera áhlaup í fjórða leikhluta enda er körfubolti leikur áhlaupa. Við snerum leik gegn Val í vikunni okkur í hag, í fjórða leikhluta. Við sem erum búin að vera lengi í körfubolta vitum það alveg að það skiptir engu máli hvernig staðan er í venjulegum körfuboltaleik á einhverjum ákveðnum tímapunkti, hlutirnir eru fljótir að breytast í þessari íþrótt.“

KR er í efsta sæti deildarinnar eftir fyrstu fjórar umferðirnar en það kemur Benedikt lítið á óvart.

„Þessi byrjun okkar í deildinni hefur alls ekki komið mér á óvart. Að sama skapi finn ég það að það eru margir hissa á þessu góða gengi okkar en það eru fjórir leikir búnir af tímabilinu og þrír sigrar duga skammt. Það er nóg eftir af þessu og við þurfum að vinna fleiri leiki áður en við getum farið að gefa spámönnum illt auga,“ sagði Benedikt í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert