Enn án sigurs eftir brotthvarf LeBron

Russell Westbrook sækir að körfu Sacramento í nótt, en hann …
Russell Westbrook sækir að körfu Sacramento í nótt, en hann var nálægt þrefaldri tvennu fyrir Oklahoma. Willie Cauley-Stein, sem er hér til varnar, og félagar fögnuðu hins vegar sigri. AFP

Það gengur ekkert hjá Cleveland Cavaliers á nýju tímabili í NBA-deildinni í körfuknattleik, en liðið er án sigurs eftir þriðja tapið í jafnmörgum leikjum í nótt. Nú fyrir Atlanta Hawks á heimavelli, 133:111.

Cleveland hefur því tapað öllum leikjum sínum eftir brotthvarf LeBron James til Los Angeles Lakers í sumar. Í leiknum í nótt fór nýliðinn Trae Young á kostum fyrir Atlanta með 35 stig og 11 stoðsendingar, sem er besta tölfræði nýliða í deildinni í átta ár. Kevin Love fór fyrir Cleveland með 16 stigum og 17 fráköstum en það dugði skammt.

Meistarar Golden State Warriors töpuðu eftir spennandi viðureign við Denver Nuggets. Það var Denver sem vann tveggja stiga sigur 100:98 og er með fullt hús stiga eftir þrjá leiki. Stephen Curry skoraði 30 stig fyrir meistarana í nótt, en liðið var að tapa sínum fyrsta leik á tímabilinu.

Þá var Russell Westbrook nálægt þrefaldri tvennu þegar Oklahoma City Thunder tapaði fyrir Sacramento Kings, 131:120. Hann skoraði 32 stig, tók 12 fráköst og gaf 8 stoðsendingar.

Úrslitin í leikjum næturinnar má sjá hér að neðan.

Cleveland Cavaliers – Atlanta Hawks 111:133
Oklahoma City Thunder – Sacramento Kings 120:131
Denver Nuggets – Golden State Warriors 100:98
Los Angeles Clippers – Houston Rockets 115:112

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert