Með lið sem getur unnið

Ægir Þór Steinarsson í leik með Stjörnunni gegn ÍR.
Ægir Þór Steinarsson í leik með Stjörnunni gegn ÍR. mbl.is/Kristinn Magnússon

Landsliðsmaðurinn Ægir Þór Steinarsson er nokkuð ánægður með leik Stjörnunnar í upphafi keppnistímabilsins á Íslandsmóti karla í körfuknattleik, Dominos-deildinni.

Stjarnan er með 6 stig eftir fjóra leiki og hefur því unnið þrjá af fyrstu fjórum. Liðinu var spáð efsta sæti í deildinni í árlegri spá forráðamanna og fyrirliða liðanna. Ægir segir vera svigrúm fyrir framfarir hjá honum og samherjum hans.

„Ég held að við höfum ekki náð að spila jafn vel og við viljum gera. Sem er sjálfsagt bara eðlilegt miðað við að leikmannahópurinn tók breytingum og nýr þjálfari tók við. Það tekur tíma að slípa allt saman eins og allir vita og gerist ekki strax í upphafi tímabils. Ég held að ágætt hafi verið fyrir okkur að fá þennan leik í Keflavík (sem Keflavík vann í síðustu umferð). Við sýndum ágæta takta en náðum ekki að klára dæmið. Við þurfum að finna okkar takt. En ég er mjög ánægður með hvernig þessi hópur er settur saman og hvernig Arnar (Guðjónsson þjálfari) og þjálfarateymið eru að vinna með liðið. Við munum halda áfram að bæta okkur og munum átta okkur aðeins betur á okkar styrkleikum og veikleikum,“ sagði Ægir og hann sagði hina árlegu spá ekki hafa haft nein áhrif á Garðbæinga. Leikmenn skynji sjálfir að liðið sé til alls líklegt ef vel gengur.

Miklar væntingar

Ægir segir Garðbæinga gera sér ljóst að leikmannahópurinn sé nægilega öflugur til að vinna bikar í vetur. En þrátt fyrir að hafa oft teflt fram öflugu liði síðasta áratuginn hefur Íslandsbikarinn ekki endað í Garðabænum. Liðið hefur hins vegar þrívegis orðið bikarmeistari.

„Við erum með leikmannahóp sem er nógu sterkur til að vinna mótið og setjum þær kröfur á okkur. Liðið er sterkt á pappírum og við gerum okkur grein fyrir því. Við verðum ekki litlir í okkur þótt við töpum einum leik og erum vongóðir um að bæta okkur. Við eigum skemmtilega leikjatörn um þessar mundir. Eftir leikinn í Keflavík eru leikir framundan gegn liðum sem hafa byrjað vel eins og Tindastól og Njarðvík. Það verður gaman að miða sig við þessi lið.“

Sjá allt viðtalið við Ægi Þór í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert