Kristófer og Elvar á leið til Íslands

Kristófer Acox og Elvar Már Friðriksson gætu verið á leið …
Kristófer Acox og Elvar Már Friðriksson gætu verið á leið í Dominos-deildina. mbl.is/Árni/Golli

Kristófer Acox og Elvar Már Friðriksson, landsliðsmenn í körfubolta, eru á förum frá franska félaginu Denain eftir að hafa gengið í raðir þess síðasta sumar. Þeir gætu orðið leikmenn KR og Njarðvíkur áður en félagaskiptaglugginn lokast í næstu viku.

„Það er ekki búið að rifta neinum samningi en ég er búinn að segja þeim að ég sé ekki sáttur hérna úti. Þetta er enn þá í vinnslu,“ sagði Kristófer við mbl.is nú síðdegis. Hann var þá staddur „heima“ í bænum Denain, nyrst í Frakklandi, en Kristófer hefur átt við meiðsli að stríða og kveðst verða frá keppni næstu þrjár vikurnar.

Eftir að Kristófer tjáði franska félaginu að hann vildi losna undan samningi fór félagið í það að finna leikmann í hans stað. Það hefur hins vegar haft þær afleiðingar að Denain riftir samningi við Elvar, sem spilar sinn síðasta leik fyrir liðið annað kvöld í bikarkeppninni.

Auðveldast að fara til Njarðvíkur

„Liðið fór í að leita að leikmanni en sagðist ekki finna nægilega stórt „ígildi“ fyrir Kristófer. Þeir fundu reynslumeiri leikstjórnanda og vildu fá hann inn, því við erum með ungt lið, og vildu þá segja upp samningi við mig til að búa til pláss. Það var því ekki ég sem rifti samningi, þeir vildu bara leysa mig undan samningi,“ sagði Elvar við mbl.is. Hann kveðst koma til Íslands um helgina en vonast þó til að finna annað atvinnumannafélag:

„Ég ætla að bíða og sjá hvað umboðsmaðurinn segir, en að öðrum kosti spila ég heima í einhvern tíma,“ segir Elvar, og þá liggur beinast við að hann snúi aftur til Njarðvíkur: „Ég hef ekki alveg ákveðið það en það yrði auðveldast fyrir mig. Ég þekki vel til þjálfara og leikmanna, svo það væri þægilegasti kosturinn. En ég stefni enn þá á að komast eitthvað annað hérna úti,“ segir Elvar.

Lítill bær og enginn talar ensku

Að sama skapi er allt útlit fyrir að Kristófer komi aftur til KR en hann hafði gert samning við Vesturbæjarfélagið í sumar með ákvæði um að hann mætti fara ef tilboð kæmi frá erlendu félagi, eins og raunin varð. Kristófer segir að sér hafi ekki liðið nægilega vel í Denain og meiðsli eiga sinn þátt í því:

„Þetta hefur verið erfitt fyrir mig. Ég fékk matareitrun og er búinn að snúa mig á sama ökkla tvisvar á fjórum vikum. Svo er líka erfitt að koma á svona lítinn stað, lítið bæjarfélag þar sem lítið er um að vera og enginn talar ensku. Mér hefur samt gengið vel hvað körfuboltann varðar í þeim leikjum sem ég hef spilað,“ segir Kristófer. Elvar er sammála því að franski bærinn sé ekki sá mest spennandi, en hafði þó hugsað sér að klára tímabilið:

„Þetta er skref aftur á bak. Ég hafði ætlað mér að vera hérna út þetta tímabil, þó að bærinn sem við höfum búið og aðstæðurnar hafi ekki verið þær skemmtilegustu. Ég ætlaði að klára þetta á hörkunni en þeir vildu gera breytingar, svo ég verð að finna mér annan stað í staðinn,“ segir Elvar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert