Hvorki brot né slit

Martin Hermansson hefur farið frábærlega af stað með Alba Berlín ...
Martin Hermansson hefur farið frábærlega af stað með Alba Berlín á þessari leiktíð. Ljósmynd/http://www.eurocupbasketball.com

Óvíst er hvort Martin Hermannsson geti leikið með íslenska landsliðinu í körfuknattleik gegn Belgíu í Laugardalshöllinni 29. nóvember í forkeppni EM 2021. Martin tognaði á ökkla í Evrópuleik með þýska liðinu Alba Berlín í Tyrklandi á miðvikudagskvöldið.

„Ég fór upp í „layup“ (sniðskot) og þegar ég kom niður lenti ég ofan á rist andstæðings. Snéri mig skemmtilega á ökklanum. Ég fann strax að sársaukinn var það mikill að þetta myndi ég ekki hrista af mér í leiknum. Ég var borinn inn í klefa og fyrst fór allt í gegnum hugann. En við erum með lækni með okkur og hann reyndi strax að kanna hvort bein hefði brotnað eða liðband slitnað. Hann taldi strax að bein væri í lagi sem var gott að heyra. Ég fór í myndatöku í gær og þar kom í ljós að ekki hafði heldur neitt slitnað. Þetta er því tognun með tilheyrandi bólgum og mari,“ sagði Martin þegar Morgunblaðið náði tali af honum í gær. Spurður um framhaldið þá er talið líklegt að Martin verði nokkrar vikur að ná sér að fullu en þegar um ökklatognun er að ræða getur bati tekið mismikinn tíma. Frá tveimur vikum ef batinn er hraður og upp í sex vikur.

„Læknirinn sagði að það gæti tekið fjórar vikur að losna alfarið við bólguna. Í framhaldinu gæti það tekið mann tvær vikur að komast almennilega í gang inni á vellinum. Hér hjá Alba Berlín eru menn lítið að stressa sig á þessu á þessum árstíma. Við erum með sterkan hóp og það er ennþá bara nóvember. Við stöndum ágætlega bæði í deildinni og í Evrópukeppninni. Ég verð orðinn góður áður en kemur að næsta stigi Evrópubikarsins sem verður í byrjun næsta árs. Ég kann ekki að vera meiddur og myndi vilja byrja aftur sem allra fyrst en auðvitað verður maður að hlusta á læknana.“

Viðtalið má sjá í heild sinni í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.