Íslendingur vinnur náið með Embiid

Joel Embiid er einn besti körfuboltamaður heims.
Joel Embiid er einn besti körfuboltamaður heims. AFP

Einar Einarsson er einka-, sjúkra- og styrktarþjálfari körfuboltamannsins Joel Embiid. Miðherjinn leikur með Philadelphia 7ers í NBA-körfuboltanum og er einn besti leikmaður deildarinnar. 

Samstaf Embiid og Einars byrjaði árið 2016, er leikmaðurinn var að glíma við erfið meiðsli. Endurhæfingin undir leiðsögn Einars gekk afar vel og hefur Embiid kosið að vinna með Einari alla tíð síðan. 

„Ég vissi í rauninni ekkert hver hann var og kom bara fram við hann eins og aðra sjúklinga hjá mér á meðan að aðrir komu fram við hann eins og stjörnu," sagði Einar í samtali við bæjarblaðið Mosfelling.

„Hann var í raun ekki á góðum stað fyrst þegar við hittumst fyrst. Hann var búinn að vera frá í tvö ár og nýbúinn að missa bróður sinn í bílslysi. Ég náði vel til hans strax frá byrjun og hafði ljóslifandi dæmi um að íþróttamaður gæti komið til baka eftir tveggja ára meiðsli. Eiður Smári er systursonur minn og ég hafði fylgst með honum koma til baka eftir erfið meiðsli. Joel var mjög duglegur, vann vinnuna sína vel og uppskar eftir því," sagði Einar ennfremur. 

Mosfellingurinn fór m.a með Embiid til Suður-Afríku og Kamerún á árinu og heldur samstarf þeirra áfram, þótt Embiid sé heill heilsu. Viðtalið í heild sinni má sjá á heimasíðu Mosfellings. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert