„Stend ein aftast alveg tjúlluð“

Irena Sól Jónsdóttir (til vinstri)
Irena Sól Jónsdóttir (til vinstri) mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

„Þetta er mjög sætt," sagði kát Irena Sól Jónsdóttir, leikmaður Keflavíkur, eftir nauman 77:74-sigur á Stjörnunni í jöfnum og spennandi leik í Dominos-deildinni í körfubolta í kvöld. Irena segist hafa fundið á sér að Keflavík myndi standa uppi sem sigurvegari. 

„Þetta var skemmtilegur leikur sem var jafn allan tímann. Við vorum svolítið að elta en við vorum grimmari í lokin og tókum þetta. Ég fann að við vorum að taka þetta í lok fjórða leikhluta, þótt munurinn hafi ekki verið mikill."

Irena fékk sína fimmtu villu undir lokin og spilaði ekki síðustu tvær mínúturnar og er hún lítið hrifin af bekkjarsetu. 

„Það var ekkert smá óþægilegt. Það var miklu erfiðara að vera á bekknum en á vellinum. Ég stend ein aftast, alveg tjúlluð, á meðan hinar sitja bara. Ég er kannski svona ofvirk," sagði hún hlæjandi. 

Keflavík tapaði fyrstu tveimur leikjum sínum á tímabilinu, en sigurinn í dag var sá sjötti í röð. 

„Okkur líður mjög vel núna. Við vorum hræðilega lélegar í fyrstu tveimur leikjunum, en núna er þetta allt að koma," sagði Irena Sól Jónsdóttir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert