Carmelo Anthony á hrakhólum

Carmelo Anthony og James Harden fara yfir sviðið.
Carmelo Anthony og James Harden fara yfir sviðið. AFP

Bandaríski körfuboltamaðurinn Carmelo Anthony var stórstjarna í NBA-deildinni fyrir örfáum árum en er nú nánast á hrakhólum. Svo virðist sem hann sé á leið frá Houston Rockets eftir skamma dvöl. 

Anthony gekk í raðir Houston í sumar en Texasbúarnir léku virkilega vel á síðasta tímabili en féllu úr keppni í úrslitakeppninni eftir hörkurimmu við Golden State Warriors sem varð meistari. Anthony hefur aldrei orðið NBA-meistari og sá líklega fyrir sér að geta barist um titilinn í vetur með Houston. 

Lið Houston hefur aðeins unnið 5 af fyrstu 12 leikjum sínum í vetur og bandarískir fjölmiðlar fullyrða nú að félagið vilji losna við Anthony. Varla verður honum einum kennt um slæma byrjun liðsins en hann þykir þó vera fullslakur í vörn til að rökrétt sé að halda honum. 

Anthony lék á síðasta tímabili með öflugu liði Oklahoma og þar þótti varnarleikur hans einnig vera dragbítur á liðið. 

Carmelo Anthony er 34 ára gamall og spurning hvort spurn sé eftir honum á þessum tímapunkti. Ósennilegt þykir að eitthvert sterkustu liðanna sækist eftir honum. Anthony gerði garðinn frægan með Denver og New York á fyrri hluta ferilsins og státar af þrennum gullverðlaunum frá Ólympíuleikum: 2008, 2012 og 2016. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert