Helena á heimleið

Helena Sverrisdóttir
Helena Sverrisdóttir mbl.is/Hari

Helena Sverrisdóttir, landsliðskona í körfuknattleik, er á leið heim úr atvinnumennsku frá Ungverjalandi. Hún staðfesti þetta í samtali við mbl.is og segir forráðamenn Cegled ekki hafa staðið við skuldbindingar sínar.  

Cegled leikur í Evrópubikarnum og Helena segir það hafa komið sér og umboðsmanni sínum mjög á óvart að félag í þeim gæðaflokki skuli ekki standa við skuldbindingar sínar. Úr því sem komið var hafi umboðsmaður hennar hjálpað henni að losna frá félaginu. 

Helenu tókst að fá samningi sínum við Cegled rift en því fylgja þó þær kvaðir að fari hún til annars atvinnumannaliðs þá vill ungverska félagið fá greiðslu fyrir hana. Muni hún á hinn bóginn ljúka keppnistímabilinu hér heima í áhugamannadeild þá getur hún haft félagaskipti án frekari eftirmála. 

„Við fórum fram á að rifta samningum vegna þess að ansi margt er að hjá félaginu um þessar mundir. Umgjörðin hefur ekki verið í þeim gæðaflokki sem lofað var og því tókum við þá ákvörðun að koma heim. Ég hef ekki áður lent í þessu á mínum atvinnumannaferli,“ sagði Helena en sambýlismaður hennar Finnur Atli Magnússon var einnig starfsmaður hjá félaginu sem styrktarþjálfari. 

Er sjálfgefið að Helena fari heim í Hauka, en hún hefur ekki spilað fyrir annað lið hérlendis á sínum ferli?

„Nei, ég er að skoða mín mál en þarf að hafa hraðar hendur þar sem félagaskiptaglugginn lokast 15. nóvember. Haukar hafa verið stór hluti af mínu lífi og ég mun hitta stjórnarfólk í Haukum í dag til að ræða málin. Ég reikna ekki með því að fara út aftur að svo stöddu því þá þyrfti viðkomandi félag að borga fyrir mig. En ef eitthvað spennandi kæmi upp þá myndi ég skoða það. En núna finnst mér gott að koma heim og tæma hausinn,“ sagði Helena Sverrisdóttir við mbl.is en hún er stödd hérlendis vegna landsleikja sem framundan eru. 

Við þetta má bæta að Finnur Atli er einnig leikmaður og fyrrverandi Íslandsmeistari með KR. Finnur lék á síðasta tímabili með Haukum. Hann gæti einnig reynst liði í efstu deild liðsstyrkur hafi hann áhuga á að taka fram skóna en hann lék ekki í Ungverjalandi. Finnur er nú félagsbundinn KR eftir að hafa leikið bikarleik með b-liði KR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert