Haukar senda Helenu kveðju

Helena Sverrisdóttir er komin í Val.
Helena Sverrisdóttir er komin í Val. mbl.is/Árni Sæberg

Helena Sverrisdóttir, fremsta körfuknattleikskona Íslands um árabil, gekk í vikunni til liðs við Val eftir stutta dvöl hjá Ceglédi í Ungverjalandi.

Hún hefur fram til þessa ekki spilað með öðru íslensku liði en Haukum og félagaskipti hennar í Val vöktu því talsverða athygli.

Haukar hafa nú sent Helenu kveðju á Facebook-síðu sinni og er hún svohljóðandi:

Í ljósi félagaskipta Helenu Sverrisdóttur í Val viljum við hjá Körfuknattleiksdeild Hauka koma eftirfarandi á framfæri.

Helena hefur verið einn af allra tryggustu leikmönnum og þjálfurum félagsins frá upphafi og veitt okkur ótal gleðistundir í gegnum árin. Haukafólk, eins og aðrir Íslendingar, hafa einnig fylgst stolt með henni á sínum ferli erlendis.

Þótt leiðir skilji að þessu sinni og hún gengin til liðs við systurfélag okkar Val, munum við að sjálfsögðu sakna hennar en við fylgjust áfram stolt með henni á vellinum og óskum henni alls hins besta.

Bragi Hinrik Magnússon
Formaður Körfuknattleiksdeildar Hauka

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert