Öruggur sigur Stólanna í Garðabæ

Tómas Þórður Hilmarsson úr Stjörnunni með boltann en Pétur Rúnar …
Tómas Þórður Hilmarsson úr Stjörnunni með boltann en Pétur Rúnar Birgisson úr Tindastóli sækir að honum í leik liðanna í Garðabæ í kvöld. mbl.is/Hari

Leikur Stjörnunnar og Tindastóls í 7. umferð úrvalsdeildar karla í körfuknattleik, Dominos-deildarinnar, varð aldrei nægilega spennandi í Mathús Garðabæjar höllinni í Garðabæ í kvöld. Tindastóll hafði ágætt forskot nánast allan leikinn og sigraði 77:68. 

Tindastóll er með 12 stig eftir sex leiki og var í öðru sæti fyrir leiki kvöldsins en Stjarnan er með 8 stig eftir sex leiki í 5. sæti. 

Tindastóll hélt Stjörnunni í 27 stigum í fyrri hálfleik og lagði grunn að sigrinum. Að loknum fyrri hálfleik var staðan 27:40. Í síðari hálfleik hleyptu þeir Garðbæingum aldrei nálægt sér og um tíma var munurinn í kringum tuttugu stig. 

Virkilega góð frammistaða hjá Tindastóli og sýnir hvað býr í liðinu enda ekki einfalt mál að ná í tvö örugg stig í Garðabæinn. Margir leikmenn voru inni í leiknum hjá Stólunum og ábyrgðin dreifðist nokkuð. Engu máli skipti þótt Pétur Rúnar ætti erfitt uppdráttar í sókninni gegn Ægi Þór. Brynjar Þór var heitur og skoraði 23 stig og Urald King virðist alltaf skila sínu. Margir fleiri lögðu í púkkið hjá gestunum. 

Garðbæingar eru örugglega ekki ósáttir við vörnina hjá sér á heildina litið en sóknin gekk ekki eins vel og nokkrir öflugir leikmenn skiluðu takmörkuðum stigafjölda eins og Collin, Arnþór, Eystinn og Tómas. Fleiri hefðu þurft að leggja í púkkið í sókninni til að naga muninn niður. En Garðbæingar þurftu að elta forskot Skagfirðinga nánast allan leikinn eftir að hafa lent 12:2 og þeir náðu aldrei að komast nógu nálægt til þess að virkilegur neisti gæti kviknað. 

Stjarnan 68:77 Tindastóll opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert