Íslenskir leikmenn þurfa meiri ábyrgð

Ívar Ásgrímsson, landsliðsþjálfari.
Ívar Ásgrímsson, landsliðsþjálfari. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við vorum fljót að hengja haus í lokin," sagði Ívar Ásgrímsson, landsliðsþjálfari kvennaliðsins í körfubolta eftir 82:52-tap fyrir Slóvakíu í undankeppni EM í Laugardalshöll í dag. Slóvakía stakk af í fjórða leikhluta en Ísland skoraði aðeins sex stig í honum. 

„Í þriðja leikhluta vantaði herslumuninn á að koma forskotinu niður í eina tölu. Við fengum ítrekað tækifæri til að ná því. Liðið var frábært í þrjá leikhluta, en í fjórða leikhluta vorum við búin að hengja haus. Við hefðum aldrei tapað í fjórða ef ég hefði verið með Helenu í fjórða leikhluta."

Ívar segir íslenska leikmenn ekki fá nægilega stórt hlutverk í sínum liðum í deildinni heima, á meðan erlendir leikmenn liðanna skora um 50 stig í hverjum leik og taka langmestu ábyrgðina. 

Ekki jákvætt að erlendir leikmenn skora 50 stig í leik

Það er slæmt að við skorum nánast ekki neitt nema það fari í gegnum Helenu. Það er vandamál fyrir okkur. Það er búið að vera þannig og var þannig úti í síðustu tveimur leikjum. Um leið og Helena þreytist þá lendum við í vandræðum og það vantar fleiri leikmenn sem geta skapað eitthvað fyrir okkur.

Í deildinni eru allir með Kana sem gera allt í öllum liðum. Það eru vandræði. Það eru ekki nógu margir leikmenn sem þurfa að taka af skarið og bera ábyrgð. Það þarf að finna lausnir á því og láta íslenska leikmenn taka meiri ábyrgð. Það er ekki hægt að skamma liðin fyrir að reyna að vinna titil og vera með eins góða leikmenn og hægt er. Það er ekki jákvætt að erlendir leikmenn skora 50 stig í deildinni, leik eftir leik."

Kristen McCarthy gæti spilað með íslenska landsliðinu í náinni framtíð.
Kristen McCarthy gæti spilað með íslenska landsliðinu í náinni framtíð. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Kristen McCarthy, leikmaður Snæfells, lýsti því yfir á dögunum að hún vilji gerast íslenskur ríkisborgari og spila með íslenska landsliðinu. Það finnst Ívari spennandi, en bætir við að íslenskir leikmenn þurfa samt sem áður að spila betur. 

„Auðvitað finnst mér það spennandi. Við erum búin að tala um það lengi að við viljum fá hana inn og hún er búinn að sýna að hún vill þetta. Hún kom á landsleiki þegar hún spilaði í Þýskalandi, þegar við vorum að spila í Ungverjalandi og lagði mikið á sig til að vera með liðinu. Ég vona innilega að þetta gangi í gegn, en þótt hún komi þurfa íslenskir leikmenn að stíga upp," sagði Ívar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert