Ég ætla að lækka forgjöfina mína

Ívar Ásgrímsson á hliðarlínunni í kvöld í sínum síðasta leik …
Ívar Ásgrímsson á hliðarlínunni í kvöld í sínum síðasta leik sem landsliðsþjálfari. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Spilamennskan var mjög góð. Við vorum að skapa fullt af færum og flæðið var mjög gott,“ sagði Ívar Ásgrímsson, fráfarandi landsliðsþjálfari íslenska kvennalandsliðsins í körfubolta eftir 74:84-tap fyrir Bosníu í lokaleik liðsins í undankeppni EM. 

„Stelpurnar voru orðnar dálítið þreyttar í lokin en við hefðum bara þurft smá þriggja stiga nýtingu til að vinna þennan leik. Það var munurinn og ástæðan fyrir að sigurinn lendir ekki okkar megin.“

Ívar segir leikinn í kvöld þann besta í undankeppninni hjá íslenska liðinu, sem hafnar í neðsta sæti A-riðils með sex töp í sex leikjum. 

„Þessi leikur var langbestur að öllu leyti. Það komu smá kaflar sem duttu niður hjá okkur en heilt yfir langbesti leikurinn. Við þurfum að taka þennan leik með okkur í næstu verkefni.“

Ívar staðfesti eftir leik að hann ætlaði að hætta með liðið. 

„Þetta var minn síðasti leikur. Auðvitað hefði ég viljað fá sigur, en ég er stoltur af þessum síðasta leik. Ég var búinn að ákveða að láta til staðar numið og fá nýtt blóð hingað inn. Ég er búinn að vera þjálfari lengi og það var kominn tími til að breyta til. 

Samningurinn minn var að renna út núna og ég hef ekki hugmynd um hvort það hefði beðið mín nýr. Það er svolítið síðan ég lét KKÍ vita að þetta yrðu síðustu leikirnir mínir. Það var engin pressa frá KKÍ.“

En hvers vegna er Ívar að hætta og hvað tekur við, annað en að stýra karlaliði Hauka? 

„Ég ætla að lækka forgjöfina mína,“ sagði hann brosandi og hélt svo áfram. „Þetta fer illa þegar ég er að þjálfa karlalið. Ég er með fjóra leiki núna á átta dögum. Það er gríðarlega erfitt, en ég er búinn að vera með frábært starfslið og það hefur bjargað miklu,“ sagði Ívar.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert