Jón Axel stigahæstur í sigri

Jón Axel Guðmundsson var stigahæstur hjá Davidson Wildcats í nótt.
Jón Axel Guðmundsson var stigahæstur hjá Davidson Wildcats í nótt. Ljósmynd/DavidsonMBB

Jón Axel Guðmundsson hefur leikið vel með Davidson Wildcats í bandaríska háskólakörfuboltanum í vetur og hann var stigahæstur í liðinu í nótt þegar það vann Winthrop, 99:81.

Jón Axel skoraði 24 stig í leiknum en hann hitti úr 8 af 14 skotum sínum. Þar að auki tók Jón Axel 10 fráköst og gaf sex stoðsendingar, svo ekki vantaði mikið upp á þrefalda tvennu hjá kappanum sem einnig stal boltanum einu sinni.

Davidson Wildcats hafa unnið átta leiki en tapað einum á tímabilinu. Nú tekur við ellefu daga hlé hjá liðinu þar til það leikur svo fjóra leiki áður en árið er á enda. Eftir áramót byrja svo leikir innan A 10-riðilsins sem Davidson leikur í, með leik við Duquesne 5. janúar. Davidson er sigursælast í riðlinum sem stendur, en fram til áramóta leika liðin við lið úr öðrum riðlum.

mbl.is