„Leið aldrei vel með þennan leik“

Hlynur Elías Bæringsson og Julian Boyd eigast við í kvöld.
Hlynur Elías Bæringsson og Julian Boyd eigast við í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Stjarnan batt enda á þriggja leikja taphrinu sína með því að leggja KR að velli, 95:84, í Dominos-deild karla í körfuknattleik í kvöld. Stjarnan hafði tapað þremur í röð fyrir landsleikjahléið en Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar, vildi ekki meina að fríið hefði breytt neinu þótt hann væri sáttur með sigurinn.

„Það er bara alltaf gott að vinna en þetta hlé breytti engu. Við vorum góðir á móti Njarðvík, Njarðvík er bara rosa gott í körfubolta líka. Við spiluðum vel þar og aftur vel í dag,“ sagði hann í samtali við mbl.is eftir leik.

Það voru KR-ingar sem fóru betur af stað en heimamenn léku á als oddi í öðrum leikhluta, unnu hann 31:10, og litu ekki um öxl eftir það. Arnar var þó ekki sáttur með varnarleik sinna manna.

„Við vorum mjög lélegir varnarlega í fyrsta leikhluta, stigum aðeins upp á köflum eftir það en vorum samt ekki nógu góðir heilt yfir. Við höfum spilað betri varnarleik en við gerðum í dag og þetta þurfum við að skoða og bæta.“

„Þetta eru fjórir leikhlutar og það þarf að spila þá alla vel. KR-ingar gáfust aldrei upp og mér leið aldrei vel með þennan leik.“

Magnað atvik átti sér stað í fyrri hálfleik þegar Arnar hljóp inn á völlinn, ósáttur með dómgæsluna en hann vildi ekkert tjá sig um atvikið. Dómarar leiksins ákváðu að gefa honum tæknivillu fyrir atvikið eftir langan umhugsunarfrest.

Arnar Guðjónsson.
Arnar Guðjónsson. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is