Rekinn vegna ofbeldisfullrar hegðunar

Hattarmenn svartklæddir í leik í úrvalsdeildinni í fyrra.
Hattarmenn svartklæddir í leik í úrvalsdeildinni í fyrra. mbl.is/Hari

Höttur á Egilsstöðum hefur leyst litháíska körfuknattleiksmanninn Pranas Skurdauskas undan samningi við félagið vegna ofbeldisfullrar hegðunar.

Frá þessu er greint á Facebook-síðu körfuknattleiksdeildar Hattar í kvöld. Þar er sagt að leikmaðurinn sé þegar farinn frá félaginu og af landi brott. hann hafi orðið vís að ofbeldisfullri hegðun og mál hans hafi komið til meðferðar hjá lögreglu.

Síðan segir: „Körfuknattleiksdeild Hattar fordæmir hegðun leikmannsins sem samræmist í engu gildum og reglum deildarinnar. Liðið undirbýr nú mikilvæga leiki í 1. deildinni en leggur ekki gildin til hliðar, harmar atvikið og hefur gripið til viðeigandi ráðstafana.“

Skurdauskas er þrítugur miðherji, 212 sm á hæð, sem hefur komið víða við á ferlinum og leikið í Austurríki og á Ítalíu, auk heimalandsins. Hann hefur tekið 9,3 fráköst að meðaltali í leik með Hetti í vetur, auk þess að skora að meðaltali 10,3 stig og gefa 3,3 stoðsendingar.

mbl.is