Segir Jón Arnór hafa sparkað í sig

Borche Ilevski, þjálfari ÍR.
Borche Ilevski, þjálfari ÍR. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

„KR er sterkt lið og það er ekki hægt að búast við að leikmannahópurinn sem ég er með núna geri atlögu að KR á þeirra heimavelli,“ sagði Borche Ilevski, þjálfari ÍR, í samtali við mbl.is eftir 69:71-tap fyrir KR í Dominos-deild karla í körfubolta í kvöld.

ÍR komst í 16:2 snemma leiks og var yfir allan fyrri hálfleikinn. KR-ingar sneru hins vegar blaðinu við í síðari hálfleik og unnu að lokum nauman sigur. 

„Körfubolti er upp og niður og KR komst aftur inn í leikinn enda með mikil gæði. Á sama tíma urðum við þreyttir, enda leikmenn að spila 35 mínútur. Við vorum ekki með svör á bekknum.

Svona leikir ráðast á einu atviki og Gerald Robinson fékk mjög gott tækifæri til að koma okkur í góða stöðu þegar stutt var eftir en það tókst ekki. Þeir skoruðu hinum megin og voru heppnir. Ég vil óska KR-ingum til hamingju en þeir voru ekki betri í dag, þeir voru heppnari.“

ÍR-ingar nýttu vítaskotin sín afar illa í leiknum og skoruðu þeir ekki eina einustu þriggja stiga körfu í síðari hálfleik. 

„Vítaskot ráða oft úrslitum og þau gerðu það í kvöld. Við klikkuðum á mörgum vítaskotum og við þurfum að vera einbeittari. KR-vörnin fór að ráðast meira á okkur og sérstaklega leikstjórnendurna. Daði meiddist hjá okkur og þá var bara Hákon eftir og Hákon var orðinn þreyttur.“

Jón Arnór Stefánsson hjá KR og Hákon Örn Hjálmarsson, ÍR, fengu báðir tæknivillur eftir smá átök í öðrum leikhluta. Að sögn Hákonar sparkaði Jón Arnór í hann. 

„Ég sá ekki hvað var í gangi en Hákon segir að Jón hafi sparkað í sig. Ég verð að sjá það betur. Ef það er ekki satt verður Hákon að læra af manni eins og Jóni sem er stjarna. Ef Jón sparkaði í hann er ég alls ekki sáttur,“ sagði Ilevski. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert