Markmiðið var að spila með stóru strákunum

Gunnar Ólafsson er búinn að leika afar vel í vetur.
Gunnar Ólafsson er búinn að leika afar vel í vetur. Ljósmynd/Skúli Sigurðsson

„Það var klárlega varnarleikurinn sem skilaði þessu. Þeir komu alltaf með áhlaup en við náðum að standast þau með góðri vörn,“ sagði Gunnar Ólafsson, besti maður leiks Keflavíkur og Vals í Dominos-deildinni í körfubolta í kvöld. 

Keflavík lagði grunninn að sigrinum með kröftugri byrjun í seinni hálfleik. 

„Við vildum setja tóninn í byrjun. Leikurinn var hins vegar jafn í hálfleik og fyrir okkur var hún 0:0. Við þurftum að koma okkur af stað aftur, í túrbó mode.“

Gunnar fékk það verkefni að stöðva besta leikmann Vals, Kendall Anthony, og tókst honum afar vel. 

„Það var verkefni að stöðva hann og mér fannst ég eiga að geta haldið honum í lægra en 17. Hann er hins vegar frábær leikmaður og það var erfitt að eiga við hann á köflum.“

Gunnar er búinn að leika afar vel með Keflavík í vetur og var honum verðlaunað með sæti í landsliðinu á dögunum. Hann er vitaskuld ánægður með sína spilamennsku til þessa, eftir veru í háskóla í Bandaríkjunum. 

„Ég hugsaði um að spila minn leik og þetta er niðurstaðan hingað til og ég get ekki kvartað. Það var búið að vera markmið hjá mér lengi að komast í aðalhópinn hjá landsliðinu og spila með stóru strákunum og nú er nýtt markmið að halda sér þar,“ sagði Gunnar. 

mbl.is