Við erum á leiðinni á gott skrið

Hallveig Jónsdóttir átti góðan leik fyrir Val.
Hallveig Jónsdóttir átti góðan leik fyrir Val. mbl.is/Haraldur Jónasson / Hari

Hallveig Jónsdóttir átti góðan leik og skoraði 18 stig, tók þrjú fráköst og gaf fjórar stoðsendingar í 101:94-sigri Vals á Keflavík í Dominos-deildinni í körfubolta í kvöld. Valskonur voru 30 stigum yfir í fyrri hálfleik, en Keflavík minnkaði muninn í þeim síðari. 

„Við ætluðum alltaf að koma inn í leikinn til að drepa þær og það gekk heldur betur vel. Við verðum hins vegar að rífa okkur aðeins upp og halda betur í forskotið. Við megum ekki tapa þessu svona svakalega niður á 20 mínútum en sigur er sigur," sagði Hallveig við mbl.is. 

Hún var ánægð með liðsframmistöðu Vals, enda margir leikmenn sem léku vel. 

„Ef þú lítur á stigatöfluna þá erum við allar að skjóta mjög vel. Við spiluðum geggjaða vörn framan af og héldum Brittanny í fáum stigum í fyrri hálfleik. Við spiluðum mjög vel, en verðum að halda því betur út leikinn."

Eftir erfiða byrjun á leiktíðinni er Valsliðið búið að vinna fjóra af síðustu fimm leikjum sínum. 

„Við erum á uppleið eftir slaka byrjun. Ég vil meina að við séum á leiðinni á gott skrið eftir þennan leik. Við náum vonandi að halda því út tímabilið, komast í topp fjóra og fara í úrslitakeppnina," sagði Hallveig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert