Hildur sterk í ellefta sigrinum

Hildur Björg Kjartansdóttir er að gera góða hluti með Celta ...
Hildur Björg Kjartansdóttir er að gera góða hluti með Celta Zorka. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hildur Björg Kjartansdóttir átti góðan leik fyrir Celta Zorka sem vann sinn ellefta sigur í röð í spænsku B-deildinni í körfubolta í dag. Celta vann þá afar sannfærandi 76:46-útisigur á Segle. 

Íslenska landsliðskonan skoraði tíu stig, tók fimm fráköst og gaf tvær stoðsendingar á 24 mínútum. 

Celta er í afar góðum málum með fullt hús stiga eftir ellefu leiki. Liðið er með þriggja stiga forskot á Ardoi og Anares sem eru í öðru og þriðja sæti, en Ardoi á leik til góða. 

mbl.is