Höggvið nærri Jabbar og Barkley

Giannis Antetokounmpo skoraði 44 stig í nótt.
Giannis Antetokounmpo skoraði 44 stig í nótt. AFP

Grikkinn Giannis Antetokounmpo og Kamerúninn Joel Embiid voru í miklum ham í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt og náðu þar sögulegum árangri.

Embiid skoraði 40 stig og tók 21 frákast fyrir Philadelphia 76ers gegn Indiana Pacers á heimavelli og er fyrsti leikmaður félagsins til að ná 40/20 síðan hinn eini og sanni Charles Barkley lék þann leik árið 1990. Ekki dugði þetta þó 76ers til sigurs því liðið tapaði leiknum gegn Indiana, 101:113.

Antetokounmpo skoraði 44 stig og tók 14 fráköst fyrir Milwaukee Bucks sem vann Cleveland Cavaliers á útivelli, 114:102. Þetta er í annað sinn sem Antetokounmpo nær 40/10 í leik með Milwaukee og aðeins einn leikmaður í sögu félagsins hefur áður leikið þann leik. Það var enginn annar en Kareem Abdul Jabbar, ein helsta goðsögn NBA, sem lék með Milwaukee á árunum 1969 til 1975. Grikkinn átti auk þess átta stoðsendingar.

Stephen Curry skoraði 35 stig fyrir Golden State Warriors sem vann Sacramento Kings á útivelli, 130:125.

Toronto, sem er með bestan árangur allra liða í deildinni til þessa, mátti sætta sig við ósigur gegn Portland Trail Blazers á útivelli, 128:122. Damian Lillard skoraði 24 stig fyrir Portland og Kawhi Leonard gerði 28 stig fyrir Toronto.

Úrslitin í nótt:

Boston - Atlanta 129:108
Charlotte - New York 124:126 - eftir framlengingu
Brooklyn - Washington 125:118
Cleveland - Milwaukee 102:114
Philadelphia - Indiana 101:113
Memphis - Miami 97:100
Denver - Oklahoma City 109:98
Portland - Toronto 128:122
Sacramento - Golden State 125:130

mbl.is